Birtust óvænt með kærleikskúluna

Hópurinn á bak við þættina vinsælu: Með okkar augum, komu Friðriki Sigurðsyni, hugmyndasmiði þáttanna, á óvart í morgun þegar þau afhentu honum fyrstu Kærleikskúluna 2020 fyrir störf sín í þágu fatlaðra.

mbl.is fékk að fylgjast með eins og sést í myndskeiðinu.

Þær Steinunn Ása og Elva Björg sem eru flestum kunn eftir að hafa unnið að þáttunum í hátt í áratug eru Friðriki afar þakklátar.  „Þættirnir okkar væru ekki til án hans,“ sagði Elva Björg í spjalli eftir afhendinguna og Steinunn Ása tekur undir það. Vinsældir þeirra hafi skipt sköpum. „Ef að þættirnir okkar hefðu ekki slegið í gegn og baráttumálin okkar ekki komist í gegn. Þá væru fordómarnir miklu meiri,“ segir hún.

En eftir störf um áratugaskeið hefur Friðrik gert margt fleira en að koma að þáttunum líkt og kemur fram í tilkynningu frá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra af tilefninu: 

Árlega velur stjórn Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra handhafa Kærleikskúlunnar. Hún er veitt framúrskarandi fyrirmynd fyrir störf í þágu fólks með fötlun. Friðrik Sigurðsson er þroskaþjálfi og starfaði um árabil sem framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar.  Hann er einn af stofnendum hátíðarinnar List án landamæra og verndari hennar.

Hann stóð einnig að stofnun Átaks, félags fólks með þroskahömlun og er heiðursfélagi í samtökunum. Friðrik átti líka hugmyndina að skemmtiþáttunum Með okkar augum. Hann kom einnig að stofnun sendiherra um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Svona mætti lengi telja. Friðrik er ötull baráttumaður og frumkvöðull í réttindabaráttu fatlaðs fólks. Hann hefur aldrei hætt baráttunni og er enn fullur af eldmóð og er sannarlega verðugur handhafi Kærleikskúlunnar.

Í kvöld verður svo hulunni svipt af Kærleikskúlunni sjálfri, og hvaða listamaður sá um hönnun hennar, í þættinum Vikulokin á RÚV. Hún verður svo fáanleg í verslunum á fimmtudag í næstu viku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka