Tókust á um breytingar á stjórnarskrá

Helgi Hrafn Gunnarsson.
Helgi Hrafn Gunnarsson. mbl.is/Hari

„Ég spyr hæstvirtan forsætisráðherra hvaða augljósu, skýru og sannfærandi skýringar hún vill gefa almenningi fyrir því að vikið sé í veigamiklum atriðum frá tillögum sem áður voru samþykktar í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu,“ spurði Helgi Hrafn Gunnarsson Pírati á Alþingi og beindi spurningunni til forsætisráðherra.

Hann sagði að 41.610 manns hefðu skrifað undir ákall um að sett verði ný stjórnarskrá á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs, samanber niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu sama efnis 20. október 2012.

Helgi Hrafn benti enn fremur á að í umsögn Feneyjarnefndarinnar svokölluðu kæmi eftirfarandi fram: 

„Nefndin álítur að íslenska þjóðin eigi að fá augljósar, skýrar og sannfærandi útskýringar á leið ríkisstjórnarinnar og enn fremur að ástæður þess að vikið sé í veigamiklum atriðum frá tillögu sem áður voru samþykktar í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 ætti að útskýra fyrir almenningi.“,“ sagði Helgi Hrafn.

Katrín Jakosdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakosdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Arnþór Birkisson

Ég vil minna á álit Feneyjanefndarinnar sem hún gaf um þau drög sem verið var að vinna með á þinginu eftir að stjórnlagaráð lauk vinnu sinni og skilaði frumvarpi sínu til Alþingis. Þá sendi þáverandi hæstvirt stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd drögin til Feneyjanefndarinnar til umsagnar. Þar gerði Feneyjanefndin mjög alvarlegar athugasemdir við fyrirliggjandi drög, m.a. að þau fælu í sér töluverða óvissu, það yrði töluverður vandi að túlka þann texta sem fyrir lá og hvaða áhrif hann myndi hafa á löggjöfina,“ sagði forsætisráðherra.

Katrín sagði að það yrði að ræða þessi mál í þingsal og takast efnislega á um þær breytingar sem þingmenn telji að eigi að gera á stjórnarskrá.

Helgi Hrafn sagði að ef forsætisráðherra væri þeirrar skoðunar að það ætti að setja nýja stjórnarskrá á grundvelli þeirra draga þá ætti að fara í það sem þarf að laga og gera uppfærslur á drögum stjórnlagaráðs.

„En það er ekki það sem var gert. Ég er sammála hæstvirtum ráðherra um að við eigum að ræða málið í þingsal, enda höfum við, Píratar og Samfylkingin og fleiri, lagt það fram hér til umræðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert