Leita leiða til að styrkja flóttafjölskyldur á Grænlandi

Frá hátíð sem Hrókurinn hélt í Uummannaq haustið 2017.
Frá hátíð sem Hrókurinn hélt í Uummannaq haustið 2017. Vinátta í verki

Velferðarsjóðurinn Vinátta í verki leitar nú eftir verkefnum fyrir grænlenskar flóttafjölskyldur sem misstu heimili sín í flóðbylgju fyrir tveimur árum. Hrafn Jökulsson upplýsti mbl.is um málið sem einnig er kynnt á vefsíðu Hróksins.

Sjóðurinn hefur til umráða söfnunarfé sem skákfélagið Hrókurinn og Kalak, vinafélag Íslands og Grænlands, í samstarfi við Hjálparstarf Kirkjunnar söfnuðu til styrktar fólki sem þurfti að yfirgefa heimili sín í Uummaannaq-firði á Grænlandi vegna flóðbylgjunnar sem skall á bæjunum 17. júní 2017.

Varð smáþorpið Nuugaatsiaq á samnefndri eyju verst úti í flóðbylgjunni en fjórir fórust þegar hún sópaði ellefu húsum á haf út. Einnig lenti þorp á smáeyjunni Illorsuit illa í flóðbylgjunni en um 200 íbúar þessara tveggja þorpa neyddust til að yfirgefa heimili sín og búa nú flestir í bænum Uummannaq.

Eiga íbúarnir ekki afturkvæmt vegna hættu á annarri flóðbylgju.

Ógurlega flóðbylgja gekk fyrir smáþorpið Nuugaatsiaq á samnefndri eyju í …
Ógurlega flóðbylgja gekk fyrir smáþorpið Nuugaatsiaq á samnefndri eyju í Uummannaq-firði. Fjórir fórust þegar flóðbylgjan sópaði ellefu húsum á haf út.Alls þurftu um 200 íbúar þessara þorpa að yfirgefa heimili sín Vinátta í verki

Hrafn Jökulsson var upphafs- og hvatamaður söfnunarinnar sem fór fram um allt land. Tóku öll sveitafélög landsins þátt í að styrkja söfnuninna ásamt þúsundum manna og fjölmörgum fyrirtækjum. Söfnuðust á endanum yfir 40 milljónir króna fyrir málefnið.

Öll sveitarfélög á Íslandi tóku þátt í landssöfnuninni Vinátta í …
Öll sveitarfélög á Íslandi tóku þátt í landssöfnuninni Vinátta í verki, auk fjölda fyrirtækja, félagasamtaka og þúsunda einstaklinga Kort/Vinátta í verki

Margrét Jónasdóttir, sem er annar stjórnarformanna sjóðsins, segir í samtali við mbl.is að söfnunarféð hafi hingað til ekki verið snert en að sjóðurinn stefni á að koma fjármununum út á þessu og næsta ári. Að sögn Margrétar vonast stjórnin til að verja hluta fjármunanna til að styrkja verkefni sem geti gagnast flóttafólkinu. 

Hver einasta króna til flóttafólksins

„Það er ekki í boði neitt sérstaklega fjölbreytt skemmtun þarna fyrir börn. Við ákváðum að verja litlum hluta af þessari upphæð til að senda þangað einhver skemmtileg verkefni sem gætu hjálpað á einhvern hátt,“ segir Margrét. 

„Við ætlum að veita fyrstu styrkina og svo munum við þarfagreina hvernig best verður að verja fjárhæðinni allri,“ segir hún. „Við ætlum að fylgja því sem upphaflega var lagt upp með að hver einasta króna fari til þessa fólks sem missti allt sitt.“

Segir Margrét að hún ásamt öðrum stjórnarformanni sjóðsins, Eldi Ólafssyni, muni vilja skilgreina í hvað peningarnir fari og passa að þeir fari beint í eitthvað sem er börnunum til góða. „Það er ekki verið að afhenda neina beina peninga heldur taka þátt í verkefnum sem miða að uppbyggingu nýs lífs fyrir fjölskyldurnar,“ segir hún. 

Margrét starfar sem kvikmyndaframleiðandi hjá Saga Film og hefur myndað töluvert á Grænlandi. Hefur hún þekkt Hrafn Jökulsson í um 30 ár og segir hann hafa beðið hana að taka að sér að keyra sjóðinn í gang. 

Uummannaq-eyja skartar tígulegu bæjarfjalli sem nefnist Hjartafjall.
Uummannaq-eyja skartar tígulegu bæjarfjalli sem nefnist Hjartafjall. Vinátta í verki

Segir hún að ásamt henni og Eldi séu þrír Grænlendingar í stjórn velferðarsjóðsins, Ann Andreasen, Makkak Markussen og Karl Peter Möller, sem allir búi í Uummannaq og muni þau taka þátt í að ákveða í hvað peningarnir fara og hvar þörfin er mest. „Við hugsuðum það í upphafi að þau þyrftu að geta haft meiri skoðun á því en við.“

Segir Margrét að þau hafi ákveðið að auglýsa núna og bjóða fram styrki fyrir verkefni sem gætu nýst og verið til góðs fyrir börnin. Hún segir að stjórnin hafi ekki viljað skilgreina verkefnin neitt nákvæmlega. Tilkynningin er á þremur tungumálum: íslensku, dönsku og grænlensku og eru vonir bundnar við að hún fari sem víðast.

„Við erum að reyna að átta okkur á því á heimafólki hver þörfin er. En svo getur verið eitthvað sem okkur yfirsést og þá er hægt að sækja um í sjóðinn og það getur vel verið að það komi sniðugar hugmyndir sem við sjáum að er algjörlega málið til þess að aðstoða eða veita forgöngu,“ segir Eldur Ólafsson.

Gert með tæru hjarta

Eldur er jarðfræðingur og er framkvæmdarstjóri félagsins Alopex Gold sem á gullnámur og  hefur leyfi í Grænlandi til að leita að gulli. Er hann einnig stjórnarformaður í öðru félagi sem á sínk-námur í Uummaannaq-firði þar sem Eldur hefur starfað og kynntist þannig landinu.

Segir hann þó Hrafn Jökulsson ástæðuna fyrir því að hann kom að starfi velferðarsjóðsins Vinátta í verki. „Um leið og maður hittir Hrafn og sér þetta starf langar mann bara að taka þátt. Þetta er smitandi. Þetta er gert með svo tæru hjarta og á svo fallegan hátt og eina endurgjöfin er bara að sjá bros á fólkinu þarna,“ segir Eldur.

„Ég er í raun og veru bara fótgönguliði þarna að reyna að styðja við þetta góða fólk sem er að gera þetta, á þann hátt sem ég get.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert