Fjalla þarf um þann kost að ræsa kísilver ekki aftur

United Silicon varð gjaldþrota á síðasta ári eftir tveggja ára …
United Silicon varð gjaldþrota á síðasta ári eftir tveggja ára brösuglegan rekstur. Ljósmynd/Víkurfréttir

Skipulagsstofnun fellst með athugasemdum á tillögu Stakkabergs ehf. að matsáætlun fyrir mat á umhverfisáhrifum kísilversins í Helguvík. 

Skipulagsstofnun telur að vinna þurfi sérstaklega að kynningu og samráði gagnvart íbúum við vinnslu frummatsskýrslu svo hægt sé að reka verksmiðjuna í sátt við íbúa svæðisins. Í frummatskýrslu þarf að koma fram hvernig þessum þætti hafi verið sinnt og sérstök áhersla lögð á samráð um þau atriði sem áhyggjur íbúa beinast einna helst að.

Rekstur kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík gekk brösuglega frá upphafi. Á ofnum hennar var ítrekað slökkt og tugir kvartana frá íbúum yfir mengun frá henni bárust. Rekstri hennar var að lokum hætt og fyrirtækið úrskurðað gjaldþrota í byrjun síðasta árs.  

Skipulagsstofnun segir í athugasemdum sínum nú að í frummatsskýrslu þurfi að gera grein fyrir mögulegri hámarksmengun við óhagstæð veðurskilyrði. Í þeirri skýrslu þurfi að gera grein fyrir styrk snefilefna og hvort og þá hvernig þau geti borist út í umhverfið. Mikilvægt sé að gerð sé grein áhrifum breytilegs afls ofna á loftgæði og viðbragðsáætlun ef ofnar séu ekki á fullu álagi.

Skipulagsstofnun bendir ennfremur á að í mörgum athugasemdum almennings við tillögu að matsáætlun eru ábendingar frá fólki sem hefur fundið fyrir óþægindum og veikindum þegar kísilverið starfaði. Í frummatsskýrslu þurfi að gera grein fyrir áhrifum kísilversins á heilsu þar sem megin áhersla verði lögð á afleidd áhrif á heilsu af loftgæðum einkum af völdum mengunarefna og lyktar frá verksmiðjunni. 

Í frummatsskýrslu þurfi einnig að fjalla um þann kost að ræsa ekki verksmiðjuna aftur. Einnig þann kost að framleiðsla verði minni en fyrirhuguð áform um 100.000 tonna ársframleiðslu geri ráð fyrir.

Einnig er það mat Skiplagsstofnunar að í frummatsskýrslu þurfi að gera grein fyrir fráveitu og hugsanlegum áhrifum á grunnvatn vegna framkvæmdarinnar. Jafnframt þurfi að gera grein fyrir áhrifum áætlaðra tæknilegra úrbóta á loftgæði, styrk og dreifingu efna. Einnig þurfi í frummatskýrslu að leggja mat á samfélagsþætti líkt og vinnumarkað og íbúaþróun á nærsvæði kísilversins. Að auki þurfi að fjalla nánar um ásýndarbreytingar vegna uppbyggingarinnar og sýna þarf ásýndarbreytingar frá fleiri sjónarhornum sem séu upplýsandi fyrir íbúa í nálægu þéttbýli. 

Ákvörðun Skipulagsstofnunar í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka