Sigurður kaus að tjá sig ekki

Sigurður Kristinsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun og lögmaður hans …
Sigurður Kristinsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun og lögmaður hans Stefán Karl Kristjánsson. mbl.is/Eggert

Sigurður Kristinsson, einn sakborninga í Skáksambandsmálinu svokölluðu, lýsti því yfir við upphaf aðalmeðferðar málsins í morgun í Héraðsdómi Reykjavíkur að hann ætlaði ekki að tjá sig frekar um málið en til stóð að taka af honum skýrslu fyrir dómi.

Málið snýst um innflutning á rúmlega fimm kílóum af amfetamíni til landsins frá Spáni. Þrír eru ákærðir í málinu sem kom upp í janúar á síðasta ári. Tveir hinna ákærðu neita sök, Sigurður og Hákon Örn Bergmann, en þriðji maðurinn, Jóhann Axel Viðarsson, hefur játað sök að hluta. Kveðst sá ekki hafa vitað að fíkniefni væru í sendingunni sem merkt var Skáksambandi Íslands.

Sigurður sagðist hafa greint satt og rétt frá öllu sem hann vissi um málið hjá lögreglu og hefði engu við það að bæta. Anna Barbara Andradóttir aðstoðarsaksóknari spurði Sigurð hvort hann hefði kynnt sér öll gögn málsins og svaraði hann því játandi.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari sagði að það væri réttur sakbornings að tjá sig ekki um sakarefnið. Spurði hann Sigurð hvort hann væri þar með að staðfesta framburð sinn í skýrslutöku hjá lögreglu. Svaraði hann því játandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert