Sveinn Gestur ítrekaði sakleysi sitt

Sveinn Gestur í Landsrétti í morgun.
Sveinn Gestur í Landsrétti í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Sveinn Gestur Tryggvason, sem dæmdur var í sex ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í tengslum við dauða Arnars Jónssonar Aspar sem lést eftir líkamsárás sem hann varð fyrir í Mosfellsdal í júní í fyrra, ítrekaði við skýrslutöku fyrir Landsrétti að hann hefði ekki veitt Arnari neina áverka.

Sveinn Gestur var dæmdur í sex ára fangelsi í héraði í lok síðasta árs en þeim dómi var áfrýjað til Landsréttar, þar sem málið var tekið fyrir í dag. Sveinn sagði að Jón Trausti Lúthersson hefði veitt Arnari áverkana en Jón var einn þeirra sem voru á staðnum.

Lögmaður Sveins rakti aftur framburð hans frá því fyrir héraðsdómi og staðfesti Sveinn þann framburð. Þar sagði Sveinn að hann, Jón Trausti og nokkrir aðrir hefðu farið að heimili Arnars í þeim tilgangi að ná í verkfæri sem Sveinn átti en voru í vörslu Arnars.

Arnar mjög æstur

Þar kom einnig fram að Sveinn og Arnar hefðu alltaf verið góðir vinir og að Sveinn hafi ávallt verið velkominn að heimili Arnars. Hins vegar hafi Arnar verið mjög æstur þegar þeir komu að heimili hans, augljóslega undir áhrifum en Sveinn hafði ekki séð hann áður í svo slæmu ástandi. 

„Hann var mjög dópaður og í mjög annarlegu ástandi," sagði Sveinn í Landsrétti í dag.

Í vitnisburði Sveins kom fram að Arnar hóf að öskra á hann og hafi reynt að slá til Sveins. Arnar æddi um tröppurnar þar til tveir bræður, sem voru með Sveini og Jóni Trausta í för, gripu hann. Arnar féll í mölina, Sveini brá og hann vildi koma sér úr aðstæðunum.

Sveinn lýsti því hvernig unnusta Arnars hafi kallað til hans að hætta þessu en hann hafi svarað því til að hann ætlaði að drepa þá sem komu. 

Ekki er deilt um það í mál­inu að Arn­ar hafi sótt kúst og gert at­lögu að bíl mann­anna, en í framb­urði Sveins lýsti hann at­lög­unni sem mjög ágengri sem hafi endað með að Arn­ar braut rúðu bíls­ins sem Sveinn var í með kúst­in­um. Þeir hafi svo keyrt niður hlaðið við heim­ili Arn­ars og ætlað í burtu, en Arn­ar komið á eft­ir þeim niður brekk­una með járn­prik.

Arnari og Jóni Trausta ekki vel til vina

Sveinn sagði að Jón Trausti hefði farið upp brekkuna að Arnari en Jón hafi verið með neyðarhamar í hendinni. Sveinn hafi þá hringt í Neyðarlínuna. Sveini sýndist Jón Trausti slá til Arnars með neyðarhamrinum og fór til þeirra. Þegar þangað kom var Arnar blóðugur undir Jóni, sem hélt honum í hálstaki. 

Sveinn spurði Jón hvort hann ætti að „taka við chokinu“ (innsk. blaðamanns: svæfa hann með heng­ing­ar­taki), með því átti Sveinn við að hann vildi halda Arnari rólegum þar til lögregla kæmi.

Sveinn sagðist vita að Jón og Arnar væru ekki góðir vinir og því vildi hann koma í veg fyrir að Jón myndi vinna Arnari mein. Sveinn hafi svo eft­ir þetta haldið hönd­um Arn­ars fyr­ir aft­an bak þangað til hann hafi áttað sig á því að hann andaði ekki og þá hafið end­ur­lífg­un.

Framburður Sveins fyrir dómi stangast á við það sem hann sagði í fyrstu tveimur skýrslutökum hjá lögreglu, þar sem hann sagðist ekki nákvæmlega hafa séð samskipti Jóns og Arnars.

Hélt að rannsókn lögreglu myndi leiða málið í ljós

Spurður hvers vegna hann hafi breytt framburði sínum sagðist Sveinn hafa vonað að þáttur Jóns kæmi frá einhverjum öðrum. „Ég sagði alltaf satt og rétt frá og hélt að rannsókn lögreglu myndi leiða hlut Jóns Trausta í ljós,“ sagði Sveinn í dag. 

„Mér fannst þetta svo augljóst. Hamarinn var þarna og það var far á kinninni á honum. Ég hélt að vitnin hefðu séð átök þeirra. Jón viðurkennir sjálfur að hafa hjólað í Arnar af því að hann ætlar ekki að láta einn mann með járnstöng fæla sig í burtu,“ sagði Sveinn.

Sveinn segist hafa séð átök Jóns og Arnars manna best og segir að sjálfur hafi hann aldrei gripið um hálsinn á Arnari eða tekið hann hálstaki. 

Saksóknari spurði Svein um muninn á framburði hans og vitna. Sveinn sagði að fyrir honum væru nokkrar ástæður, til að mynda hafi hann verið staddur mun nær Jóni og Arnari. Auk þess gætu peningar haft eitthvað að segja en ættingjar Arnars krefja hann um skaðabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka