Fer fram á þyngri refsingu yfir Sveini

Sveinn Gestur þegar málið var tekið fyrir í Héraðsdómi í …
Sveinn Gestur þegar málið var tekið fyrir í Héraðsdómi í Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sak­sókn­ari í máli ákæru­valds­ins gegn Sveini Gesti Tryggva­syni fer fram á þyngri refsingu yfir Sveini Gesti en aðalmeðferð fór fram í málinu í Landsrétti í dag. Sveinn Gestur var dæmdur í sex ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyr­ir stór­fellda lík­ams­árás í tengsl­um við and­lát Arn­ars Jóns­son­ar Asp­ar.

Þeim dómi var áfrýjað og málið tekið fyrir í Landsrétti.

Farið er fram á þyngri refsingu vegna alvarlegra afleiðinga og sagði saksóknari að brot gegn 218. grein hegningarlaga varði allt að 16 ára fangelsi.

Saksóknari fór einnig fram á að Sveinn Gestur verði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað í héraði og áfrýjunarkostnað. Bætti sak­sókn­ari við að Sveinn Gest­ur hafi rofið 8 mánaða skil­orðsdóm, bund­inn til þriggja ára, með broti sínu.

Saksóknari sagði að framburður Sveins í málinu hefði tekið sífelldum breytingum frá fyrstu skýrslutöku. Sérstaklega nefndi saksóknari breytingar er varða þátt Jóns Trausta Lútherssonar, sem var handtekinn upphaflega í tengslum við málið.

Nefndi saksóknari að í fyrstu skýrslutöku hjá lögreglu, sama kvöld og atvikið átti sér stað, hafi Sveinn sagt að hann hafi ekki fylgst með því sem fór á milli Arnars og Jóns Trausta og að Sveinn hafi bara tekið við Arnari af Jóni Trausta.

Framb­urður Sveins fyr­ir dómi stang­ist á við það sem hann sagði í fyrstu tveim­ur skýrslu­tök­um hjá lög­reglu, þar sem hann sagðist ekki ná­kvæm­lega hafa séð sam­skipti Jóns og Arn­ars.

Sjálfur sagði Sveinn í morgun að hann hefði alltaf sagt satt og rétt frá og að hann vonaði að rannsókn lögreglu myndi leiða hlut Jóns Trausta í ljós.

Saksóknari tekur það ekki trúanlegt að Sveinn hafi verið að hlífa Jóni Trausta í fyrstu skýrslutökunum. Hann sagði að framburður Sveins í málinu væri ótrúverðugur og í andstöðu við framburð vitna í málinu.

Árásin hafi verið gróf og afleiðingarnar alvarlegar. Sveinn hafi reynt að fegra sinn hlut en að mati saksóknara er alvarlegra að hann hafi reynt að varpa sök á annan mann. Tekið var fram að það ætti að meta það til refsiþyngingar í málinu.

Að sögn rétt­ar­gæslu­manna fer Heiðdís Helga Aðal­steins­dótt­ir, unn­usta Arn­ars, fram á að Sveinn greiði henni 21.759.535 krón­ur í miska- og skaðabæt­ur með vöxt­um.

Einnig er farið fram á að ákærði greiði ungri dótt­ur Arn­ars og Heiðdís­ar Helgu rúm­ar 18 millj­ón­ir króna í bæt­ur með vöxt­um.

Að sögn sak­sókn­ara fara for­eldr­ar Arn­ars fram á sam­tals 9 millj­ón­ir króna í miska­bæt­ur, auk út­far­ar­kostnaðar. Fimmtán ára dótt­ir Arn­ars fer fram á 5 millj­ón­ir króna í miska­bæt­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka