„Ekki útilokað“ að starfsfólk haldi áfram

Ekki er útilokað að þjónustufulltrúar Hörpu dragi uppsagnir sínar til …
Ekki er útilokað að þjónustufulltrúar Hörpu dragi uppsagnir sínar til baka, segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sem fundaði með hópnum í gær. mbl.is/Eggert

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, fundaði í gær með um tuttugu þjónustufulltrúum sem sagt hafa upp störfum í Hörpu. Hann segir fundinn hafa verið frábæran og að honum hafi heyrst á hópnum að það væri „ekki útilokað“ að uppsagnir verði dregnar til baka, en það velti þó á afstöðu stjórnenda hússins.

„Fyrst og fremst alveg frábær fundur. Þetta er svo flottur og öflugur hópur, mikill mannauður þarna á ferð með reynslu og það er virkilega gaman að setjast niður með fólki sem er tilbúið að standa saman og berjast fyrir réttindum sínum,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is.

Ragnar Þór mun funda með Svanhildi Konráðsdóttur, forstjóra Hörpu, og fleiri stjórnendum í húsinu á fimmtudaginn. Hann segist vita hvað þurfi að gera til að leysa farsællega úr þessu máli og að hann telji að það geri stjórnendur Hörpu líka. Hann vonast til þess að lending náist.

„En það verður bara að koma í ljós hver afstaða stjórnenda verður,“ segir Ragnar. „Ég veit ekki hverju ég á von á en ég vona að þetta verði lausna- og sáttafundur. Ég held að báðir aðilar hafi hugmyndir um hvað þarf að gera til að leysa þetta. Þetta er nú ekki flókið dæmi.“

Eigendur Hörpu marki stefnu sem sómi er af

Ragnar Þór setur stórt spurningarmerki við þá eigendastefnu ríkisins og borgarinnar sem hann segir að birtist í þessu máli og í öðrum dæmum úr Hörpu, þar sem jafnvel sé stunduð gerviverktaka á meðal sviðs- og tæknimanna.

Formaður VR segir að kjaramál í Hörpu ættu að vera …
Formaður VR segir að kjaramál í Hörpu ættu að vera kosningamál í Reykjavík. mbl.is/​Hari

Ragnar spyr hvort þetta sé virkilega það sem eigendur hússins vilji kenna sig við.

„Að ríkið og sveitarfélag, í þessu tilfelli borgin, séu að standa fyrir gerviverktöku þar sem fólk er jafnvel ótryggt og síðan koma fram gegn þeim lægst launuðu með þessum hætti, ætti einfaldlega ekki að vera í boði,“ segir Ragnar, sem vill að borgin og ríkið komi fram og „marki eigendastefnu sem sómi sé af.“

Ætti að vera kosningamál

Hann segir málið vera stórt og að mati Ragnars ættu kjaramál starfsmanna í Hörpu að verða að kosningamáli í Reykjavík ef borgaryfirvöld bregðist ekki við með afgerandi hætti og móti eigendastefnu sem tryggi starfsfólki hússins góð kjör.

„Að það sé verið að koma fram við starfsfólk eins og í verstu tilfellunum sem við erum að verða vör við í okkar störfum innan verkalýðshreyfingunnar þá óska ég eftir framboðum sem eru tilbúin að leiðrétta kjör þessa fólks ef borgarstjóri, borgarstjórn og meirihlutinn ætlar ekki að stíga fram í þessu máli og mynda sér einhverja afstöðu.

Eftir höfðinu dansa limirnir og ég geri ráð fyrir því að stjórn Hörpu starfi eftir einhverri eigendastefnu og ef hún er sú að skera niður öll framlög til hússins þannig að það verði ekkert eftir til skiptanna nema rétt til að merja taxtana eða standa í einhverri gerviverktöku, þá er það einfaldlega ekki líðandi okkar megin,“ segir Ragnar og bætir því við að það sé grundvallaratriði að fyrirtæki í eigu ríkisins og borgarinnar séu rekin með sóma og virðingu fyrir þeim sem þar starfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert