Ferðamaður fyrir hvern íbúa

Þegar búið verður að byggja þau hótel sem eru í byggingu í miðbænum verða gistipláss fyrir einn gest á móti hverjum íbúa innan Hringbrautar í hverfi 101. Þetta segir Birgir Þröstur Jóhannsson, arkitekt og formaður íbúasamtaka í miðborginni, að sé alltof hátt hlutfall.

Jafnframt sé verið að byggja of mikið af íbúðahótelum í borginni en í endurskoðuðu aðalskipulagi er leyft að byggja íbúðahótel, þar sem ekki er boðið upp á þjónustu, við aðalbrautir. 

Þá gagnrýnir Birgir að gert sé ráð fyrir að fé sé varið í uppbyggingu á útsýnispöllum fyrir ferðamenn á meðan það sitji á hakanum að byggja upp þjónustu fyrir íbúanna. „Það er í raun engin karfa [körfubolta] sem ég veit um fyrir innan Hringbraut,“ tekur Birgir sem dæmi.

Nú stendur yfir fundur í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem borgarstjóri og embættismenn funda með íbúasamtökum um uppbyggingu í miðborginni. Þetta eru á meðal þeirra mála sem helst brenna á íbúum að sögn Birgis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert