Samdi við norsku meistarana

Sveinn Jóhannsson í búningi Kolstad.
Sveinn Jóhannsson í búningi Kolstad. Ljósmynd/Kolstad

Kolstad, norska meistarafélagið í handknattleik karla, hefur staðfest komu Sveins Jóhannssonar til félagsins að þessu keppnistímabili loknu.

Sveinn, sem er 25 ára gamall línumaður og öflugur varnarmaður, hefur skrifað undir eins árs samning við Kolstad og kemur til félagsins frá þýska B-deildarfélaginu Minden.

Hann lék áður með Skjern og Sönderjyske í Danmörku og Reykjavíkurliðunum ÍR og Fjölni en Sveinn á að baki 12 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.

Þar með verða þrír Íslendingar í liði Kolstad á næstu leiktíð en Sigvaldi Björn Guðjónsson er að ljúka öðru tímabili þar og skrifaði fyrir skömmu undir langtímasamning við félagið, til ársins 2030. Þá mun Benedikt Gunnar Óskarsson ganga til liðs við félagið frá Val í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert