Bandaríkjamenn hrifnir af Gæslunni

„Þór er ótrúlegt skip og hlakka mikið til að fá að fara í skoðunarferð um borð,“ segir bandaríski skipstjórinn John McTamney sem stýrir strandgæsluskipinu Spencer sem tekur þátt í Arctic Guardian æfingunni. Hann segir ljóst að Landhelgisgæslan sé vel tækjum búin og að starfsfólkið sé mjög hæft.

Spencer er minnsta skipið af þeim fimm sem taka þátt í æfingunni en auk þess er Þór frá Íslandi og skip frá Danmörku, Kanada og Noregi. Hinsvegar er Spencer með langfjölmennustu áhöfnina. Um 105 manns af báðum kynjum eru í áhöfn en sérhæfing á meðal áhafnarmeðlima er mikil þegar kemur að björgunarstörfum og löggæslustörfum og helgast fjöldinn af því. Til samanburðar eru 18 manns í áhöfn á Þór sem er miklu stærra og tilkomumeira skip.

Heimahöfn Spencers er Boston og hefur skipið tekið m.a. þátt í aðgerðum til að stöðva fíkniefnasmygl og hafa eftirlit með innflytjendamálum.  

Löndin sem taka þátt í Arctic Guardian eru 8: Bandaríkin, Danmörk,Finnland, Ísland, Kanada, Noregur, Rússland og Svíþjóð. McTamney segir að öll samskipti fari fram á ensku og að enga hnökra hafi verið að finna í samskiptunum í upphafi, allir tali góða ensku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert