160% fjölgun ferðaþjónustufyrirtækja á áratug

Samhliða fjölgun ferðamanna hafa ferðaþjónustufyrirtæki sprottið upp.
Samhliða fjölgun ferðamanna hafa ferðaþjónustufyrirtæki sprottið upp. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fyrirtækjum í ferðaþjónustu hefur fjölgað gífurlega mikið á síðustu tíu árum og eru nú um 3.500 fyrirtæki sem sjá um gistiþjónustu, afþreyingu tengda ferðaþjónustu, rútuþjónustu, bílaleigu og sem starfa sem ferðaskrifstofur. Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn Elsu Láru Arnardóttur um þróun ferðaþjónustu.

Gististöðum fjölgað um 56% á 8 árum

Elsa spyr um stöðu fyrirtækja í dag, fyrir 10 árum og fyrir 20 árum. Í tilfelli gististaða er miðað við árin 1998, 2008 og 2016, en í hinum tilfellunum eru það árin 1997, 2007 og árið í ár.

Gististaðir voru í júlí árið 1998 samtals 653 talsins. Á næstu tíu árum fjölgaði þeim lítillega og voru þeir 696 talsins árið 2008. Í fyrra voru skráðir gististaðir hins vegar 1.089 samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Hafði þeim því fjölgað um 56% á 8 árum.

Afþreyingarfyrirtækjum fjölgað nífalt á áratug

Fjöldi fyrirtækja sem býður upp á afþreyingu tengda ferðaþjónustu hefur aukist hvað mest á síðustu árum, en árið 2007 voru skráð fyrirtæki í þeim geira 150 talsins. Í ár eru þau aftur á móti 1.348 og hefur því fjölgað nífalt. Ekki voru til tölur fyrir árið 1997.

Bílaleigur voru árið 1997 33 talsins og fjölgaði upp í 56 til ársins 2007. Í ár eru skráðar bílaleigur aftur á móti 131 og hefur þeim því fjölgað um 134% á 10 árum.

Örtröð ferðamanna við Strokk
Örtröð ferðamanna við Strokk mbl.is/Ómar Óskarsson

Fimmfalt fleiri ferðaskrifstofur

Rútufyrirtæki  voru árið 1997 15 talsins samkvæmt tölum Ferðamálastofu. Árið 2007 var fjöldinn kominn upp í 366 fyrirtæki og í ár eru 601 fyrirtæki með skráð rekstrarleyfi til fólksflutninga þar sem ekið er með níu farþega eða fleiri. Tekið er fram í svari ráðherra að vegna leyfisbreytinga sé aftur á móti erfitt að svara spurningunni með afgerandi hætti þar sem mismunandi forsendur geti reynst fyrir því hvað sé rútufyrirtæki í dag og fyrir 20 árum.

Í tilfelli ferðaskrifstofa eru ekki til tölur fyrir árið 1997, en árið 2007 var fjöldi þeirra 68 talsins. Í ár eru skráðar ferðaskrifstofur aftur á móti orðnar 308 talsins og hefur fjölgað um tæplega fimmfalt.

Samtals eru þessi fyrirtæki í dag 3.477 talsins en voru 1.336 fyrir um 10 árum síðan. Hefur þeim því fjölgað um rúmlega 160% á einum áratug.

Leiðsögumönnum fjölgað mikið

Elsa spyr einnig út í fjölda menntaðra leiðsögumanna, en árið 1997 voru þeir 489 talsins og 847 árið 2007. Í ár eru aftur á móti 1.312 menntaðir leiðsögumenn samkvæmt upplýsingum frá Leiðsöguskólanum í Menntaskólanum í Kópavogi.  Samkvæmt svörum frá Félagi leiðsögumanna eru skráðir félagar á bilinu 1.300-1.400 og áætlar félagið að annar eins fjöldi, jafnvel fleiri, starfi við leiðsögu hér á landi, en ekki liggur fyrir opinber skráning á því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert