Ekki gert ráð fyrir stórvirkjunum

Samkvæmt skýrslunni eru vís­bend­ingar um að lagn­ing 800 til­ 1.200 …
Samkvæmt skýrslunni eru vís­bend­ingar um að lagn­ing 800 til­ 1.200 kílómetra sæstrengs kunni að reyn­­ast bæði Íslandi og Bret­landi þjóð­hags­­leg og viðskiptalega arð­­söm. mbl.is/Brynjar Gauti

Sæstrengur frá Íslandi til Bretlands kallar á um tæplega 1.500 megavött af nýju uppsettu afli til ársins 2035. Ekki er gert ráð fyrir að virkja þurfi á við tvær Kárahnjúkavirkjanir til þess að mæta þeirri þörf, heldur getur orkan komið að hluta úr nýtingarflokki rammaáætlunar, frá smávirkjunum, vindorku, lágjarðvarma og aflaukningu í núverandi virkjunum.

Í ítarlegri skýrslu Kviku og Pöyry um arðsemi hugsanlegs sæstrengs til Bretlands, sem kynnt var á blaðamannafundi á þriðjudag, kemur fram að lagning sæstrengs kalli á framkvæmdir hér á landi í raforkuvinnslu, en miðsviðsmynd skýrslunnar útheimtir samtals 2.137 megavött af nýju uppsettu afli árið 2035. Án sæstrengs er þegar gert ráð fyrir 678 megavöttum af nýju uppsettu afli og er þörfin vegna sæstrengs því áætluð um 1.459 megavött.

Núverandi virkjanir stækkaðar

Sviðsmyndin gerir ráð fyrir að núverandi vatnsaflsvirkjanir verði stækkaðar sem nemur um 448 megavöttum. Er þessi stækkun stærstur hluti allra nýfjárfestinga í vatnsafli.

Auk þess er gert ráð fyrir að 276 megavött komi frá hefðbundnum vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum, sem fellur undir nýtingarflokk í 2. hluta rammáætlunar, 550 megavött frá vindorku, 150 megavött frá smávirkjunum og 35 megavött frá lágjarðvarma.

Til samanburðar var samanlagt uppsett afl í virkjunum á Íslandi 2.757 megavött í árslok 2014. Nýfjárfestingar í virkjunum eru knúnar áfram af aukinni eftirspurn á Íslandi sem og af útflutningsmöguleikum sæstrengsins.

Skýrsla Kviku og Pöyry

Breytir ekki áformum Landsvirkjunar

Í skýrslunni er ekki gert ráð fyrir að virkjanakostir í biðflokki eða verndarflokki rammáætlunar verði nýttir.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, tók einmitt sérstaklega fram í samtali við Fréttablaðið að sæstrengur myndi ekki breyta því hvernig fyrirtækið flokkar sína virkjanakosti. Sæstrengur geti rúmast innan þeirra áforma sem ágæt sátt virðist vera um á hér á landi.

Sem dæmi um virkjanakosti, sem finna má í nýtingarflokki rammáætlunar og Landsvirkjun getur því nýtt til að mæta orkuþörf sæstrengs, eru Bjarnarflag, Blönduveitsvirkjun, Hvammsvirkjun, stækkun Kröflu og Þeistareykir. Sæstrengur mun ekki breyta því hvaða virkjanakosti fyrirtækið mun nýta.

Auk þess gerir Landsvirkjun ráð fyrir því að geta aukið aflið í núverandi virkjunum um yfir 400 megavött. Slík aukning er talin mikilvæg til þess að hægt sé að stýra vinnslu virkjanakerfisins og hámarka þannig nýtingu þeirrar umframorku sem fellur til nær árlega. Þannig megi stýra orkuframleiðslu í takt við eftirspurn og verð í Bretlandi.

Skýrsla Orkustofnunar

Villandi samanburður

Í umræðunni hefur því verið haldið fram að virkja þurfi á við tvær Kárahnjúkavirkjanir til þess að framleiða raforka fyrir sæstrenginn. Kárahnjúkavirkjun er um 690 megavött í uppsettu afli.

Hörður benti hins vegar á í samtali við Kjarnann í gær að þessi ályktun ætti sér ekki stoð í skýrslu Kviku og Pöyry. Skýrslan geri ráð fyrir um 1.500 megavöttum og stór hluti þess afls - um það bil ein Kárahnjúkavirkjun - myndi koma úr bættri nýtingu á núverandi kerfi.

„Þá myndu líka koma til smærri virkj­anir í vatns­afli, vindi og jarð­varma sem myndu selja inn á kerf­ið, en væri að öðrum kosti ekki hag­kvæmt að gera.

Í þriðja lagi væri um hefð­bundna virkj­ana­kosti að ræða og úr þeim þyrftu að koma um 250 mega­vött. Það er álíka stórt og Hraun­eyja­foss­virkj­un, en mun minna en Kára­hnjúka­virkj­un.

Að okkar mati er því ekki rétt að leggja þetta svona upp eins og gert var.“

Frá blaðamannafundinum á þriðjudag.
Frá blaðamannafundinum á þriðjudag. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert