Breytingar LÍN merki um skammsýni

Aðalbygging Háskóla Íslands
Aðalbygging Háskóla Íslands mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) ákvað á fundi sínum í gær að hækka kröfur um námsframvindu úr 60% í 75% á hverju námsmisseri. Breytingin er til komin vegna hagræðingarkröfu sem stjórnin segir hvíla á sjóðnum.

„Meginbreytingin er sú að námslán hækka um 3% í samræmi við vísitölu, en til þess að geta það og ná fram þeirri hagræðingarkröfu sem við stöndum frammi fyrir eru námsframvindukröfur auknar úr 60% í 75% af 30 eininga önn, eins og krafan hefur lengst af verið. Krafan fer því úr 18 einingum upp í 22 einingar“, segir Jónas Friðrik Jónsson, stjórnarformaður LÍN.

Í þessu felst að nemandi þarf nú að standast fleiri einingar til að eiga rétt á námslánum. Nái nemandi því aðeins 21 einingu á önn á hann ekki rétt til neinna námslána.

Jónas segist þetta ekki stangast á við tillögur stjórnar LÍN um að hækka grunnframfærslu í apríl. „Þetta er spurning um það að finna peninga, meðal annars til þess að getað hækkað grunnframfærsluna,“ segir Jónas.

„Ég held í sjálfu sér að það sé ekki ósanngjarnt að gerð sé krafa um 75% námsárangur, en einnig verður að hafa í huga að til viðbótar geta menn fengið aukið svigrúm vegna erfiðra aðstæðna, s.s. veikinda. Þannig er möguleiki til að taka tillit til ákveðinna félagslegra atriða,“ segir Jónas. Hann segir ákvörðunina um meiri kröfur um námsárangur ekki hafa legið fyrir lengi. Ákvörðunin bíður staðfestingar menntamálaráðherra á úthlutunarreglum lánasjóðsins.

Gæti raskað áætlunum yfir 1.200 nemenda

María Rut Kristinsdóttir, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ), segir afleiðingar þessara breytinga vera margþættar. „Það er enginn staðalstúdent sem hægt er að segja að þetta komi við á ákveðinn hátt. Fólk fer í gegnum háskólanám á mismunandi hraða og deildir háskólans eru mjög mismunandi,“ segir María Rut. „Staðreyndin er sú að um það bil fjórðungur allra áfanga við Háskóla íslands eru 10 eininga áfangar. Því eru miklar líkur á því að þessar breytingar á kröfum um námsframvindu hafi áhrif í fjölmörgum tilvikum,“ segir María Rut.

„Ef þessar breytingar verða samþykktar þá þýðir það að námsmaður sem fellur í einum 10 eininga áfanga á engan rétt til námslána. Þessi tala, 22 einingar, virðist líka mjög sérstök og úr lausu lofti gripin. Félagsstofnun Stúdenta, sem leigir út íbúðir til stúdenta, gerir kröfu um að námsmaður ljúki 20 einingum til að hann eigi rétt á að leigja stúdentaíbúð. Það er því ekkert samræmi í þessu,“ segir María Rut.

Hún segir jafnframt að komi eitthvað upp á og að námsmaður nái ekki þessum lágmarkseiningafjölda á önn þá þýði það í mörgum tilvikum að stór yfirdráttarskuld vegna fyrirframgreiddra námslána falli á námsmenn. „Það getur leitt til þess að námsmenn geti þurft að endurskoða hvort þeir geti hreinlega haldið áfram námi sínu,“ segir María Rut. „Ég held að þetta sé ákveðin skammsýni.“

María segir SHÍ átta sig á því að á LÍN sé ákveðin hagræðingarkrafa. Hins vegar telur hún að rétt væri að skoða aðrar leiðir til að mæta henni en að gera námsmönnum erfiðara um vik að fá lán hjá sjóðnum.

„Ljóst er að þetta kemur afar seint fram sem mun koma illa fyrir marga sem þegar hafa skráð sig í nám og gert ráðstafanir vegna komandi námsárs. Það liggur því  í augum uppi að þessar breytingar gætu kollvarpað áætlunum yfir 1.200 stúdenta.“ segir María Rut, en samkvæmt gögnum frá henni eru um 10% þeirra sem taka námslán nemendur sem ljúka 18-22 einingum á önn, sem að óbreyttu gætu misst allan rétt til námslána.

„Við fyrstu sýn vekja þessi áform ugg hjá mér. Við í Stúdentaráði Háskóla Íslands erum að skoða málið gaumgæfilega og munum beita okkur af fullum krafti gegn því að þessi ákvörðun stjórnar verði staðfest,“ segir María Rut. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert