Skotárásarmál dómtekið

Frá héraðsdómi í morgun en þar fer fram aðalmeðferð í …
Frá héraðsdómi í morgun en þar fer fram aðalmeðferð í skotárásarmáli í Bryggjuhverfi mbl.is/Sigurgeir

Aðalmeðferð í skotárásarmálinu sem verið hefur til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur frá mánudegi lauk fyrir hádegið í dag. Málið hefur verið dómtekið og búast má við að dómurinn verði kveðinn upp innan fjögurra vikna.

Farið er fram á sex ára fangelsi yfir Kristjáni Halldóri Jenssyni en hann handlék haglabyssuna og hleypti af tvívegis í átt að bifreið sem í sátu tveir menn 18. nóvember sl. í Bryggjuhverfinu í Reykjavík. Tveir menn til viðbótar. Tómas Pálsson Eyþórsson og Axel Már Smith, eru ákærðir fyrir hlutdeildarbrot er er farið fram á þriggja ára fangelsi og tveggja ára fangelsi yfir þeim.

Saksóknari fer fyrst og fremst á að mennirnir verði dæmdir fyrir tilraun til manndráps en til vara að þeir verði dæmdir fyrir hættubrot. Refsing við síðarnefnda brotinu er mun vægari, eða að hámarki fjögur ár.

Í máli saksóknarans kom fram að á bifreið mannsins hafi fundist 161 far eftir haglabyssuskot. Þá hafi málmagnir fundist inni í biĺnum, en afturrúðan brotnaði þegar skotið var á bílinn.

Þá benti saksóknari á, að þó svo sakborningar neituðu sök lýstu þeir allir verknaðinum með sama hætti og gert er í ákæru, fyrir utan smávægileg atriði sem vart skipti máli þegar kemur að ákvörðun refsingar.

Saksóknari sagði að brotið hefði verið einstaklega ófyrirleitið og mikið líftjón hefði getað hlotist af. Til grundvallar verði að leggja, að það hafi verið tilviljun hvar skotið hafi verið á bílinn, sérstaklega í síðara skiptið en þá hafi báðir bílar verið á ferð. Þá hafi Kristján látið sér í léttu rúmi liggja hvar skotið hafnaði. „Hafi hann eingöngu ætlað að hræða hefði hann látið eitt skipti dugað og skotið upp í loftið. Honum hlaut að vera ljóst hvaða afleiðingar gátu hlotist af því að skjóta á bílinn.“

Hvað þátt annarra varðar sagði hún ljóst að Tómas átti frumkvæðið, stóð að skipulagningu með Kristjáni og vissi að beita ætti byssu á umræddum fundi. Hann hafi ekið bílnum, einnig í eftirförinni og þannig veitt Kristjáni liðsinni við skotárásina. Axel hafi verið fengin til að fara með til þess að veita liðsinni, hann hafi vitað hvað stóð til og farið út úr bílnum ásamt hinum, en einnig tekið þátt í eftirförinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert