Forvitnilegur framburður fórnarlambs

Tómas, Axel og Kristján.
Tómas, Axel og Kristján. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Þó svo aðalmeðferð í skotárásarmálinu sé ekki lokið er ekki úr vegi að fara yfir feril málsins frá því það kom upp 18. nóvember sl., bæði út frá skýrslum fyrir dómi og ekki síður lögregluskýrslum í málinu. Hugsanlega má út frá þeirri yfirferð finna vísbendingar um það hvers vegna aðalvitnið í málinu, sem á var skotið vill ekki gefa skýrslu fyrir dómi.

Eins og áður hefur komið fram á mbl.is var aðalmeðferðinni frestað í morgun til morguns vegna þess að aðalvitni í málinu mætti ekki til sḱýrslugjafar. Hann átti að koma fyrir dóminn í gær en lét ekki sjá sig, gefin var út vitnakvaðning sem honum var birt en engu að síður mætti hann ekki fyrir dóminn í morgun. Var því brugðið á það ráð að gefa út handtökuskipun og er hún í gildi.

Finni lögreglumenn manninn eða hann gefi sig fram er heimild fyrir því að halda honum í sólarhring og færa hann fyrir dómara í fyrramálið.

Flest atriði í málinu óumdeild

Eiginlega má segja að flest atriði í málinu séu óumdeild. Það sem stendur út af borðinu er hvort um tilraun til manndráps hafi verið að ræða, eins og mönnunum er gefið að sök. Því neita þeir og segja að aðeins hafi átt að hræða manninn.

En víkjum að upphafi málsins. Fyrir liggur að einn sakborninga, Tómas Pálsson Eyþórsson, 26 ára, skuldaði manni pening. Þar sem sá maður nýtur nafnleyndar í málinu skulum við kalla hann Adam, en sá er um þrítugt. Menn þessir hittust miðvikudaginn 16. nóvember í fyrra. Tómas greiddi Adam þá hluta skuldarinnar, eða um hundrað þúsund krónur. Fyrir dómi sagði Tómas að eftirstöðvarnar áttu að vera 140 þúsund krónur. Adam efaðist um að það væri rétt og reiddist þegar Tómas sýndi honum stílabók með bókhaldi sínu, þar sem það var niðurstaðan. Adam sló þá Tómas nokkrum höggum og sagði eftirstöðvar skuldarinnar vera hálfa milljón króna. Einnig fór Adam fram á að Tómas greiddi fyrri greiðslu eftir tvo daga en fullnaðargreiðslu innan viku.

Í skýrslu Tómasar kom fram að hann hefði lagst í mikið þunglyndi eftir þetta og meðal annars íhugað sjálfsvíg. Hann hefði viljað komast undan skuldinni og því hefði hann haft samband við nokkra einstaklinga, meðal annars annan sakborning í málinu, Kristján Halldór Jensson. Mikil samskipti voru á milli Tómasar og Kristjáns á fimmtudeginum, þeir hefðu þá hist um kvöldið á bar og rætt um málið fram á nótt. Þá hefðu þeir meðal annars komið við í bílskúr í Breiðholti þar sem Kristján sýndi Tómasi afsagaða haglabyssu, auk fleiri vopna.

Fékk ónotatilfinningu

Tómas hafði samband við Adam á föstudeginum til að koma á fundi með honum um kvöldið. Það tókst að lokum en Adam bað félaga sinn um að koma með sér. Lýsti hann því sem svo að Adam hefði haft ónotatilfinningu. Í gegnum tíðina hefði gengið erfiðlega að ná í Tómas og fá hjá honum pening sem hann skuldaði. Þennan dag hefði hann verið einkar ákveðinn í að þeir hittust, sem honum hafi þótt furðulegt.

Eftir á að hyggja er ljóst að Adam hafði að ýmsu leyti rétt fyrir sér. Hjá lögreglu lýsti Adam atvikum kvöldsins á þann veg, að hann hefði ásamt félaga sínum komið akandi á bifreiðastæði við bílasöluna Höfðahöllina að Tangarbryggju 14 í Reykjavík. Þegar þangað var komið hefði Tómas ekið bíl sínum fyrir bíl Adams. Út úr bifreiðinni hefðu þrír menn stigið, Tómas og tveir sem huldu andlit sín. Annar þeirra síðarnefndu hefði haldið á haglabyssu. Adam hefði þá reynt að aka bifreið sinni aftur á bak frá mönnunum en byssumaðurinn þá hleypt af.

Eftir þetta hefðu þeir stigið aftur upp í bíl sinn og ekið mjög greitt á eftir þeim. Meðal annars hefði Tómas, sem ók, reynt að komast fram úr Adam meðan á eftirförinni stóð. Þegar þeir komu svo að hringtorgi við Sævarhöfða hefði Tómas ekið bifreið sinni upp að hinum bílnum og þá hefði verið skotið öðru sinni á bílinn með þeim afleiðingum að afturrúðan mölbrotnaði og högl höfnuðu í farþegasæti bifreiðarinnar.

Þessari lýsingu höfnuðu Tómas og Kristján ekki. Tóku fram að fjarlægðin hefði verið heldur meiri en lýst er, og Kristján sagðist ekki hafa ætlað að skaða Adam eða félaga hans.

Bróðir bar ekki vitni

Allt tiltækt lið lögreglu hóf þegar rannsókn og leit að árásarmönnunum á föstudagskvöldinu og fram á morgun. Þeir fundu fljótt bílinn sem þeir voru á, en Tómas hafði hann að láni. Mennirnir skildu bílinn eftir skammt frá vettvangi þar sem þeir voru sóttir af yngri bróður eins sakborninga, og félaga hans. Þeir eru þó ekki ákærðir í málinu en komu sem vitni fyrir dóminn. Bróðirinn nýtti sér heimild í lögum til að bera ekki vitni og félagi hans sagðist ekkert muna frá þessu kvöldi. Hann hefði orðið ofsahræddur og lent í óminnisástandi.

Fyrir liggur að þriðji sakborningurinn, Axel Már Smith, var keyrður heim til sín í Hafnarfjörð strax eftir skotárásina. Hans þáttur í málinu virðist fremur rýr. Kristján hafi hringt í hann fyrr um kvöldið og beðið hann að vera til taks í bílnum. Hann þekkti ekki Tómas fyrir þetta kvöld.

Hinir tveir, þ.e. Kristján og Tómas, fengu hins vegar enn einn manninn til að keyra sig upp í Borgarfjörð. Þar dvöldu þeir á sveitabæ. Tómas fram á sunnudag þegar honum var ekið aftur til Reykjavíkur. Hann var handtekinn sama dag. Í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir Tómasi segir að hann hafi játað þátt sinn í árásinni, hann hafi hins vegar ekki vitað af skotvopninu. Þá vildi hann ekki gefa upp hverjir hefðu staðið að árásinni með honum.

Fundu mikið magn vopna

Svo virðist sem fremur auðvelt hafi verið fyrir lögreglu að finna það út. Tómas hringdi sautján sinnum í Kristján Halldór á föstudeginum. Fjölmargir voru handteknir vegna rannsóknarinnar og farið í nokkrar húsleitir. Fannst talsvert af fíkniefnum og einnig vopn. Í einni húsleitinni, í Breiðholti, fannst mjög mikið af vopnum, þar á meðal byssur og skotfæri. Telja má líklegt að það sé bílskúrinn þar sem Tómas og Kristján skoðuðu haglabyssuna aðfaranótt föstudagsins.

Tíu dögum eftir rannsóknina var Kristján handtekinn. Hann neitaði alfarið aðild sinni að málinu. Síðasti sakborningur í málinu, Axel Már, var svo handtekinn 8. desember sl. Í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir honum frá 22. desember sl. kemur fram að Tómas hafi upplýst lögreglu um atvik málsins. Þegar verjandi Kristjáns spurði út í sinnaskipti hans hjá lögreglu við aðalmeðferðina, sagði Tómas að sér hefði verið lofað að hann myndi ekki afplána dóm sinn með öðrum sakborningum. Liggur enda fyrir að hann er í haldi í fangelsinu í Kópavogi en hinir tveir á Litla-Hrauni.

Saman í félagsskapnum Outlaws

Bæði Adam og félagi hans sem var með í bílnum þegar skotið var á hann lögðu fram bótakröfu í málinu. Við upphaf aðalmeðferðarinnar í gærmorgun upplýsti réttargæslumaður um það að Adam hefði dregið bótakröfu sína til baka. Þegar það er svo sett í samhengi við það, að Adam mætti ekki fyrir dóminn vakna spurningar.

Því má vísa í enn einn gæsluvarðhaldsúrskurðinn þar sem haft er eftir einum sakborningi, Axel, að hann, Kristján og aðrir sem handteknir voru í þágu rannsóknarinnar séu saman í félagsskapnum Outlaws. Lögregla lítur á umræddan félagsskap sem glæpasamtök.

Að því sögðu má fastlega búast við spurningum um það við aðalmeðferðina á morgun, finnist Adam, hvers vegna hann farið í felur. Má nefna að á meðal þeirra sem komu fyrir dóm í gær voru einmitt menn sem handteknir voru við rannsóknina.

Forvitnilegt verður því að heyra framburð Adams, þegar hann verður gefinn.

Ákæruvaldið í málinu.
Ákæruvaldið í málinu. mbl.is/Sigurgeir
Komið með sakborning fyrir dóm.
Komið með sakborning fyrir dóm. mbl.is/Sigurgeir
Komið með sakborning fyrir dóm.
Komið með sakborning fyrir dóm. mbl.is/Sigurgeir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert