Tíðar komur hvítabjarna

Reuters

Hvítabirnir hafa verið óvenju tíðir gestir á Íslandi upp á síðkastið. Björninn sem sást í Hælavík í morgun var sá fjórði sem sést hefur hér á landi það sem af er 21. öldinni.

Skráðar tilvísanir til hvítabjarna hér á landi eru nálægt 500 samkvæmt  grein dr. Ævars Petersen dýrafræðings sem birtist á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands í maí í fyrra. 

Tveir hvítabirnir voru felldir hér á landi í júní 2008, annar á Þverárfjalli og hinn á Hrauni á Skaga. Þá var hvítabjörn felldur í Þistilfirði í janúar 2010.

Þar á undan fréttist síðast af hvítabirni um 60 sjómílur norðaustur af Hornbjargi í júní 1993. Skipverjar á Guðnýju ÍS snöruðu og drápu björninn. Árið 1988 fannst hvítabjarnarhúnn í Haganesvík í Fljótum.

Á 20. öldinni liðu að meðaltali fimm ár á milli koma hvítabjarna hingað til lands, að sögn Ævars í samtali við mbl.is. Fjórir hvítabirnir á þremur árum er dálítið mikið miðað við að ekki hafa verið hafísár.

Samkvæmt tölum í mars í fyrra voru skráðar 289 athuganir á hvítabjörnum hér á landi og dýrin samtals 611. Nú hefur eitt bæst í hópinn. Ævar bendir á í grein sinni að vissrar ónákvæmni gæti í þessum tölum og hætt við að dýr hafi verið tvítalin.  Elsta heimildin um hvítabjörn hér á landi er frá um 890.

Bjarndýrakomur hafa verið fleiri en ella í hafísárum. Árið 1918, þegar frostaveturinn mikli reið hér yfir með miklum hafís, komu 30 hvítabirnir til landsins.  Ævar sagði að skoðun gagna um komur hvítabjarna hafi sýnt að tíðnin var mest í Þingeyjarsýslum.

Ævar sagði að hann hefði ekki skýringu á því hvers vegna svo mörg bjarndýr hafi komið hingað undanfarið á tiltölulega skömmum tíma. Hann sagði að hvítabirnirnir sem komu í júní 2008 hafi verið á mjög einkennilegum tíma árs miðað við það sem algengt var hér áður fyrr.

Birnir komu á árum áður gjarnan á þessum árstíma, undir vorið.  Ævar benti á að ís nálgist landið meira eða minna á hverjum vetri. Þótt ís verði ekki landfastur en komi í námunda þá geti birnir hæglega synt langar leiðir.

Hann sagði að gervihnattasendar hafi verið settir á hvítabirni í Kanada fyrir 1-2 árum. Einn þeirra synti 700 kílómetra með tækið. Sundið á milli Íslands og Grænlands er um 300 km breitt þar sem það er mjóst. 

Ævar sagði ísbjarnarkomurnar vekja spurningar um hvað sé að gerast hvað varðar hafíslög á norðurhveli og hvort þær séu afleiðing af því. 

Ómögulegt er að segja til um hve lengi bjarndýrið hefur haft landvist hér. Ævar sagði að hvítabirnir geti verið vikum saman án þess að fá æti. Eins geti þeir snapað eitthvað í fjörum og tórt hér talsverðan tíma. Það fari þó væntanlega eftir því hvernig dýrið var á sig komið við komuna til landsins.

Kort sem fylgir grein Ævars Petersen um dreifingu hvítabjarna sem …
Kort sem fylgir grein Ævars Petersen um dreifingu hvítabjarna sem sést hafa hér á landi. Hver punktur táknar eina athugun nema þar sem eru tölur. Punkturinn með 13 á miðju landinu vísar til fjölda athugana sem ekki er unnt að staðsetja nánar. www.ni.is
Hvítabjörninn sem kom á Hraun á Skaga sumarið 2008.
Hvítabjörninn sem kom á Hraun á Skaga sumarið 2008. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert