Tekjur ríkissjóðs sýna hversu hagvextinum er misskipt

Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, sagði að það kæmi nokkuð á óvart hversu tekjur ríkissjóðs væru miklar. Því miður sýndi þetta enn og aftur fram á að landið væri ekki eitt hagsvæði, á suðvesturhorninu og á Mið-Austurlandi hefðu menn mikið umleikis en víða annars staðar væri lítið um að vera, einkum í minni sjávarbyggðum. Þessi misskipting væri verulegt áhyggjuefni, ekki síst nú þegar búið væri að skera niður þorskkvótann.

Aðspurður hvort taka hefði átt á þessum vanda í fjárlagafrumvarpinu, sagði Guðjón að hvorki þar né annars staðar mætti sjá merki um hvernig hægt væri að rétta af þau svæði sem verst yrðu úti vegna niðurskurðar kvótans. Það eina sem gæti virkað væri að skera kvótann ekki svona mikið niður. „Sjávarútvegsráðherrann sagði einhvern tímann að það kæmi ekkert í staðinn fyrir 60.000 tonn af þorski. Ég er sammála honum um það," sagði Guðjón.

Þá væri athugavert að ekki væri tekið tillit til þeirra stóriðjuframkvæmda sem stefnt væri að. Ekki væri heldur gert ráð fyrir áhrifum kjarasamninga.

Í mörgum tilfellum mætti örugglega finna tilvik þar sem hann hefði viljað sjá hærri útgjöld, t.d. í skólamálum og í heilbrigðismálum.

Guðjón sagði að horfa yrði til þess að jafna kjörin, bæði milli landshluta og milli stétta. Mikilvægt væri að lagfæra persónuafsláttinn, láglaunafólki til hagsbóta. „Lágtekjufólk hefur setið eftir á undanförnum árum. Ef það er svigrúm til að laga til, þá held ég að menn eigi að gera það þar, en ekki halda áfram með flata skattalækkun sem kemur langbest út fyrir þá sem hæstar hafa tekjurnar," sagði hann. Þetta gæti auk þess hjálpað til við gerð kjarasamninganna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert