Hættumerkin mörg en ríkisstjórnin sofandi og værukær

„Þetta er auðvitað glæsileg staða hjá ríkissjóði eins og við framsóknarmenn höfum margtalað um á síðustu árum. Skuldirnar farnar og uppgangurinn í þjóðfélaginu gefur gríðarlegar tekjur. Þannig að þetta er mikið veisluborð, fjárlagafrumvarpið. En hins vegar finnst mér sem ríkisstjórnin sé sofandi og værukær því hættumerkin eru mörg," sagði Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins í gær um frumvarp til fjárlaga árið 2008.

Guðni sagði athugavert hjá ráðherrum að ræða um skattalækkanir á sama tíma og fyrir dyrum stæðu flóknir kjarasamningar og hann óttast að ríkisstjórnin átti sig ekki fyllilega á þeirri gríðarlegu þenslu sem ríki í þjóðfélaginu. Svo virðist sem ríkisstjórnin ætli sér ekki að stíga á neinar bremsur. Þá kæmi fram í frumvarpinu að engar stóriðjuframkvæmdir væru á döfinni en á hinum frjálsa markaði heyrðist annað.

„Ég hefði því haldið að það væri mikilvægast fyrir þessa ríkisstjórn að átta sig á því að það eru núna hagsmunir fólksins í landinu og fyrirtækjanna að það verði stigið á bremsunarnar þannig að við náum snertilendingu í atvinnulífinu," sagði hann.

Fresti framkvæmdum

Aðspurður með hvaða hætti ríkisstjórnin ætti að stíga á bremsurnar, sagði Guðni að leggja ætti áherslu á að ná samkomulagi ríkis, atvinnulífs og sveitarfélaga um að seinka framkvæmdum til að draga úr þenslu. En þá yrði jafnframt að hafa í huga að þenslan væri fyrst og fremst á suðvesturhorni landsins.

Þegar Guðni var spurður hvort hann myndi vilja að stóriðjuframkvæmdum yrði frestað, sagði hann að meiri hraði virtist í þeirri uppbyggingu en margir hefðu talið. „Við núverandi aðstæður eigum við að doka við í þeim efnum."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert