Fjárlagafrumvarpið byggist á óljósum forsendum

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, telur að fjárlagafrumvarp fyrir árið 2008 sé byggt á óljósum forsendum og margar séu ólíklegar til að standast.

„Í fyrsta lagi er ekki reiknað með stóriðju inn í forsendur frumvarpsins þó verið sé að undirbúa þrjár, fjórar eða fimm slíkar á fullu. Þar með myndu falla um sjálfar sig þær fullyrðingar að það væri að stefna í betra jafnvægi í hagkerfinu ef þær fjárfestingar dælast allar hér inn," sagði hann. Raunar væri gert ráð fyrir mikilli þenslu og viðskiptahalla, jafnvel þó ekkert yrði af stóriðjuframkvæmdum.

Varðandi frumvarpið sjálft sagði Steingrímur að hinn áætlaði afgangur byggðist á viðskiptahalla, verðbólgu og þenslu. Í frumvarpinu væri áfram vanáætlað verulega hvaða fjármunir þyrftu að renna inn í menntakerfið og heilbrigðiskerfið. Ekkert nýtt væri þar að finna fyrir aldraða, öryrkja og lágtekjufólk. Þá myndu skattleysismörkin varla halda í við launaþróun og alls ekki við verðlagsþróun.

„Eitt af því fáa sem er alveg á hreinu í þessu frumvarpi eru stóraukin útgjöld til eiginlega hernaðarmála," sagði Steingrímur, vel á annan milljarð, hefði hann tekið rétt eftir. Þetta væri ekki sérlega gáfuleg ráðstöfun á fé á meðan ekki stæði til að gera betur í öðrum málaflokkum. „Þeir sem gerðu sér vonir um að strax á næsta ári yrði farið í stórar aðgerðir í velferðarmálum og til að jafna laun og lífskjör í landinu, þeir verða fyrir miklum vonbrigðum," sagði hann.

Þá væri ekki gert ráð fyrir neinum, eða óverulegum launabreytingum sem væri undarlegt því hann þekkti þess engin dæmi að verkalýðshreyfingin legði upp í gerð kjarasamninga án þess að gera ráð fyrir að launin myndu hækka.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert