Alcoa biðst velvirðingar á rafmagnsleysi

Álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði.
Álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði. Reuters

Í tilkynningu frá Alcoa Fjarðaál, segir að forsvarsmönnum fyrirtækisins þyki afar leitt að fólk og fyrirtæki á Austurlandi hafi orðið fyrir óþægindum vegna rafmagnsleysis í gær. Ástæða rafmagnsleysisins var sú að verið var að prófa tæknibúnað í álverinu, sem tengist háspennuvirki og það olli því að rafmagnið í kerskálanum sló út.

Alcoa Fjarðaál segir að fyrirtækið búi sem stendur við það að fá rafmagn af landsnetinu, þar sem Kárahnjúkavirkjun sé ekki komin í gang.  Þar af leiðandi sé verið að keyra álverið tímabundið á veikara neti en ella.  Það sé viðráðanlegt ástand, þótt rafmagnstruflun hafi átt sér stað í gær.  

Alcoa Fjarðaáls segir, að sérfræðingar fyrirtækisins séu í samvinnu við Landsnet að rannsaka nákvæmlega hvað gerðist og hvernig unnt sé að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.  Þegar álverið fái rafmagn frá Kárahnjúkavirkjun verði staðan önnur og litlar líkur taldar á því að atvik sem þetta geti gerst, þar sem álverið verði miklu betur einangrað frá landsnetinu.  

Álver Alcoa Fjarðaáls varð rafmagnslaust í um það bil tvær klukkustundir í gær.  Búið er að gangsetja 40 af þeim 336 kerum sem eru í kerskálum fyrirtækisins. Óstöðugleiki komst á kerin þegar rafmagnið fór af, en unnið var að því í gærkvöld að koma stöðugleika á þau á ný. Fyrirtækið segir, að það hafi tekist vel og ekkert tjón varð á kerjunum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert