Talið að starfsmenn Alcoa Fjarðaáls hafi fengið snert af matareitrun

Álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði.
Álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði. Reuters

Ekki er talið, að magakveisa, sem 15 starfsmenn Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði fengu í gærkvöldi, hafi haft alvarlegar afleiðingar. Grunur leikur á að starfsmennirnir hafi fengið snert af matareitrun. Þeir fengu aðkeyptan mat í bökkum þar sem mötuneyti álversins er ekki tilbúið og beinist grunurinn helst að kjötkássu sem var í matarbökkunum.

Erna Indriðadóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls, segir vitað, að þeir sem veiktust höfðu allir borðað þennan mat. Ekki sé vitað hvort einhverjir, sem borðuðu matinn, sluppu. Milli 20 og 30 starfsmenn voru á kvöldvaktinni í gærkvöldi og vitað er að þeir fengu sér ekki allir að borða á vaktinni.

Alcoa Fjarðaál óskaði eftir því við Heilbrigðiseftirlit Austurlands í morgun, að orsakir veikindanna yrðu kannaðar og er ekki búist við niðurstöðu úr þeirri rannsókn strax. Erna vildi ekki að svo stöddu upplýsa frá hvaða fyrirtæki maturinn var keyptur enda væri ekki endanlega ljóst hvort orsaka magakveisunnar væri þar að leita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert