Alcoa Fjarðaál fær nýtt starfsleyfi

Alcoa Fjarðaál á Reyðarfirði í febrúarlok
Alcoa Fjarðaál á Reyðarfirði í febrúarlok mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir

Nýtt starfsleyfi Alcoa Fjarðaáls var gefið út af Umhverfisstofnun þann 25. janúar og birt í Stjórnartíðindum þann 9. febrúar sl. með 2ja vikna lögbundnum kærufresti. Engar kærur bárust, samkvæmt upplýsingum frá Alcoa Fjarðaál.

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa á Íslandi, segist í fréttatilkynningu vera ánægður með að starfsleyfið sé í höfn.

„Við höfðum aldrei trú á að niðurstaðan yrði önnur, en ferlið hefur óneitanlega verið langt. Útgáfa þessa nýja starfsleyfis fellur vel að þeirri atburðarás sem einkennir lokasprettinn í undirbúningi að opnun álversins,” segir Tómas.

Það var snemma árs 2005 að Héraðsdómur Reykjavíkur hnekkti niðurstöðu Skipulagsstofnunar og umhverfisráðherra og úrskurðaði að nýtt mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmda við álver Alcoa Fjarðaáls skyldi fara fram. Hæstiréttur staðfesti þessa niðurstöðu í júní sama ár.

Skipulagsstofnun hafði í desember árið 2002 komist að þeirri niðurstöðu að ekki þyrfti nýtt mat á umhverfisáhrifum í stað þess sem unnið hafði verið og samþykkt fyrir álver Norsk Hydro í Reyðarfirði. Umhverfisráðherra staðfesti þessa niðurstöðu snemma árs 2003. Í kjölfarið dró norska fyrirtækið áætlanir sínar um Reyðarál til baka og Alcoa kom inn í myndina, samkvæmt fréttatilkynningu.

Eftir að Alcoa Fjarðaál hafði skilað inn frummatsskýrslu um umhverfisáhrif í apríl á síðasta ári og síðar matsskýrslu í júlí sendi Skipulagsstofnun frá sér álit í lok ágúst sl. þar sem fallist var á framkvæmdina. Umhverfisstofnun auglýsti í kjölfarið tillögu að starfsleyfi en frestur til að skila inn athugasemdum við hana rann út rétt fyrir síðustu áramót. Endanlegt starfsleyfi var síðan gefið út þann 25. janúar og birt í Stjórnartíðindum 9. febrúar sl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert