Hjörleifur segir vísbendingar um að álversframkvæmdir stríði gegn lögum

Frá byggingasvæði Alcoa við Reyðarfjörð.
Frá byggingasvæði Alcoa við Reyðarfjörð. mbl.is/Steinunn

Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi alþingismaður, segir að svo virðist sem stofnanir hafi ekki gætt þess að Alcoa Fjarðaál og Fjarðabyggð fari að lögum og sé framkvæmdum við álverið á Reyðarfirði haldið áfram afskipta– og átölulaust af yfirvöldum þótt Alcoa Fjarðaál hafi ekki enn óskað framkvæmdaleyfis.

Hjörleifur segir, að Skipulagsstofnun hafi í lok ágúst sl. sent frá sér álit um mat á umhverfisáhrifum álvers Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði sem unnið var í kjölfar Hæstaréttardóms 9. júní 2005. Eftir að álit Skipulagsstofnunar var gefið út virðist sem umhverfisráðuneytið, Skipulagsstofnun og Umhverfissstofnun hafi ekki gætt þess að Alcoa Fjarðaál og Fjarðabyggð fari að lögum og er framkvæmdum við álverið á Reyðarfirði fram haldið afskipta– og átölulaust af yfirvöldum.

Segir Hjörleifur, að hann telji þetta fela í sér alvarleg lagabrot, sem kunni að varða refsiábyrgð. Þannig muni Alcoa Fjarðaál ekki hafa óskað framkvæmdaleyfis og Fjarðabyggð ekki tekið á málinu eftir að Skipulagsstofnun gaf út álit sitt.

Atli Gíslason, hæstaréttarlögmaður, hefur fyrir hönd Hjörleifs sent erindi til umhverfisráðuneytis, Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar, krafist skýringa og að þessir aðilar láti málið þegar í stað til sín taka þannig að farið sé að landslögum.

Hjörleifur segir, að lög um mat á umhverfisáhrifum kveði á um, að óheimilt sé að gefa út leyfi fyrir framkvæmd fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir og að við umfjöllun um umsókn um framkvæmdaleyfi skuli sveitarstjórn taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Birta skuli ákvörðun sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda ásamt niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu og dagblaði sem gefið sé út á landsvísu innan tveggja vikna frá útgáfu leyfis. Í ákvörðun um leyfi skuli tilgreina kæruheimildir og kærufresti.

Þá segir Hjörleifur, að í áliti Skipulagsstofnunar sé skýrt tekið fram að framkvæmdir Alcoa Fjarðaáls séu háðar framkvæmdaleyfi Fjarðabyggðar samkvæmt skipulags– og byggingarlögum og starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Þessi leyfi muni ekki hafa verið gefin út og almenningi gefinn kostur á að kynna sér þau og gera athugasemdir lögum samkvæmt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert