Fjallað verði um umhverfisáhættu vegna siglinga stórra leiguskipa

Hjörleifur Guttormsson, fv. þingmaður og ráðherra, hefur sent til Skipulagsstofnunar athugasemdir í 15 liðum vegna frummatsskýrslu Alcoa Fjarðaáls vegna mats á umhverfisáhrifum álverksmiðju í Reyðarfirði, en frestur til að skila inn athugasemdum rann út í gær. Næsta skref í matsferlinu er að Skipulagsstofnun sendir framkomnar athugasemdir til Alcoa sem framkvæmdaraðila sem í framhaldinu þarf að útbúa sína matsskýrslu. Skipulagsstofnun fær síðan matsskýrsluna í hendur og gefur út sitt álit á henni.

Í athugasemdum sínum krefst Hjörleifur þess að framkvæmdir Alcoa Fjarðaáls verði stöðvaðar á meðan unnið er að mati á umhverfisáhrifum álversins. Átelur hann fyrirtækið fyrir að tefja matsferlið um nær hálft ár, "og standa þannig ekki við staðfestar tímasetningar í matsáætlun en halda jafnframt á fullu áfram framkvæmdum við verksmiðju á Reyðarfirði," segir Hjörleifur í athugasemdum sínum.

Hjörleifur telur að krefjast verði samþættra mengunarvarna með vothreinsun til viðbótar við þurrhreinsun á grundvelli innlendra reglna og skuldbindinga um bestu fáanlega tækni, eigi að koma til greina að leyfa starfrækslu álvers Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði. Setur hann fram kröfu um að í matsskýrslu geri Alcoa nákvæmlega grein fyrir hvernig vothreinsibúnaður geti fallið að núverandi hönnun verksmiðjunnar og jafnframt að útskýrt verði hvers vegna halda ætti í hinn háa skorstein ef vothreinsun yrði að veruleika.

Hjörleifur krefst þess jafnframt í athugasemdum sínum að í matsskýrslu verði fjallað um umhverfisáhættu og ábyrgð Alcoa vegna siglinga stórra leiguskipa í þágu verksmiðjunnar til og frá Reyðarfirði og meðfram Austfjörðum. Einnig hvetur hann til þess að í matsskýrslu geri Alcoa grein fyrir aðgerðum sínum til að bregðast við hugsanlegu straumrofi og til að mæta jarðfræðilegri áhættu sem steðjað geti að Kárahnjúkavirkjun svo og annarri náttúruvá er truflað gæti orkuafhendingu til álversins.

Í niðurlagi athugasemda sinna segir Hjörleifur: "Nú reynir á að menn virði lögin og niðurstöðu dómstóla. Ekki er lögmætt að láta það viðgangast að Alcoa Fjarðaál noti ekki bestu fáanlega tækni og samræmdar mengunarvarnir í álverksmiðjunni."

Athugasemdir Hjörleifs má nálgast í heild sinni á heimasíðu hans á slóðinni www.eldhorn.is/hjorleifur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert