Alcoa Fjarðaál fagnar skýrslu um þjóðgarð norðan Vatnajökuls

Alcoa Fjarðaál fagnar skýrslu nefndar um stofnun þjóðgarðs norðan Vatnajökuls, sem unnin var af nefnd undir forystu umhverfisráðuneytisins og kynnt nýlega.

„Hin góða samstaða sem náðist innan nefndarinnar um þær tillögur sem í skýrslunni er að finna, leggur grunn að stofnun þjóðgarðs sem gæti orðið einn sá merkasti á norðurhveli jarðar.

Alcoa Fjarðaál hefur þegar lýst yfir áhuga sínum á að leggja sitt af mörkum til að unnt verði að hrinda þessu mikilvæga verkefni í framkvæmd. Fyrirtækið mun eiga samráð við opinbera aðila um hvernig best verði staðið að þátttöku þess.

  Alcoa Fjarðaál lýsir sérstakri ánægju með framgöngu umhverfisráðherra og starf nefndarinnar, sem var skipuð þingmönnum fjögurra flokka auk ráðuneytisstjóra umhverfisráðuneytsins sem fór fyrir nefndinni. Fyrirtækið er reiðubúið að veita liðsinni sitt til að þær tillögur sem fram koma í þessari tímamótaskýrslu megi verða að veruleika,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert