TBL valin til að hanna útlit álvers í Reyðarfirði

Mynd af sigurtillögu í hönnunarsamkeppni sem Alcoa og Bechtel/HRV efndu …
Mynd af sigurtillögu í hönnunarsamkeppni sem Alcoa og Bechtel/HRV efndu til um hönnun fyrirhugaðs álvers Fjarðaáls í Reyðarfirði.

Samstarfshópur þriggja íslenskra arkitektastofa, sem starfar undir nafninu TBL, hefur verið valinn til að hanna útlit, umhverfi og innra rými fyrirhugaðs álvers Fjarðaáls í Reyðarfirði. Hópurinn samanstendur af arkitektastofnunum Teiknistofunni ehf., Batteríinu ehf. og Landslagi ehf.

Hópurinn sendi inn tillögu í hönnunarsamkeppni sem Alcoa á Íslandi og Bechtel/HRV efndu til á síðasta ári. Alls bárust fjórar tillögur frá keppendum sem áður höfðu verið valdir í forvali. Sérstök valnefnd mælti með tillögu TBL á grundvelli listræns gildis hennar og vegna þess að hún þótti samrýmast vel markmiðum um sjálfbærni. Valnefndin var skipuð fulltrúum frá Alcoa á Íslandi, Bechtel/HRV, Fjarðabyggð og ráðgjöfum Alcoa frá Carnegie Mellon háskólanum, að því er segir í tilkynningu frá Alcoa og Bectel/HRV.

Tillögurnar fjórar sem bárust í keppnina þóttu mjög faglegar og vandaðar. Þær munu verða almenningi til sýnis á eftirtöldum stöðum:

- Á Stríðsminjasafninu á Reyðarfirði, 31. janúar – 8. febrúar
- Í Reykjavík, sýningarstaður og tími auglýst síðar
Auk vinningstillögunnar bárust tillögur frá eftirtöldum aðilum í keppnina:

- Arkitektastofan OÖ ehf. og Suðaustanátta landslagsarkitektúr
- ATL Design Group (Arkís ehf, THG ehf. og Landark ehf.) VA-arkitektar ehf.,
- VA-arkitektar ehf., Arkitektur.is, Landmótun ehf. og Holm & Grut Architects.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert