Fjarðaál og Bechtel semja um byggingu álvers á Reyðarfirði

Svona mun álverið á Reyðarfirði líta út fullklárað.
Svona mun álverið á Reyðarfirði líta út fullklárað.

Fulltrúar Fjarðaáls og verktakans Bechtel Group Inc. undirrituðu í dag samning um byggingu álvers á Reyðarfirði. Samkvæmt samningnum mun Bechtel taka að sér að reisa 322.000 tonna álver á Reyðarfirði og er áætlað að verkinu verði lokið árið 2007. Gert er ráð fyrir að bygging álversins muni kosta í kringum einn milljarð bandaríkjadala, jafnvirði um 80 milljarða íslenskra króna. Samstarfsaðili Bechtel á Íslandi er HRV verkfræðisamsteypa sem saman stendur af verkfræðistofunum Hönnun, Rafhönnun og VST.

Skrifað var undir samninginn í samkomuhúsinu Félagslundi á Reyðarfirði að viðstöddum fulltrúum íslenskra stjórnvalda, fyrirtækja og hagsmunasamtaka. Bernt Reitan, framkvæmdastjóri frummálmvinnslu hjá Alcoa, undirritaði samninginn fyrir hönd Fjarðaáls en Andrew Greig, framkvæmdastjóri málmvinnslu hjá Bechtel, skrifaði undir fyrir hönd Bechtel. Meðal viðstaddra voru Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, Kristinn H. Gunnarsson, formaður iðnaðarnefndar Alþingis, Smári Geirsson, forseti bæjarstjórnar í Fjarðabyggð, og Guðmundur Bjarnason, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Fram kemur í tilkynningu frá Fjarðaáli að áætlað sé að bygging álversins muni kosta í kringum einn milljarð bandaríkjadala, jafnvirði um 80 milljarða íslenskra króna. Vinna við hönnun álversins er þegar hafin en gert er ráð fyrir því að byggingarframkvæmdir hefjist seint á árinu 2005. Alls er búist við því að unnin verði í kringum 2.300 ársverk í tengslum við framkvæmdirnar og að starfsmenn verði um 1500 þegar þeir verða flestir. Stefnt er að því að álverið muni hefja framleiðslu í apríl 2007 og muni skila fullum afköstum síðar sama ár.

Fram kemur í tilkynningunni að báðir aðilar samningsins leggi mikla áherslu á að öryggi starfsmanna verði tryggt við framkvæmdirnar og að þess verði gætt að áhrif framkvæmdanna á umhverfi og lífríki verði sem minnst. Einnig vilja samningsaðilar að náið samráð verði haft við heimamenn í tengslum við framkvæmdirnar. Einnig verður kappkostað að ljúka framkvæmdum á tilsettum tíma og innan kostnaðaráætlunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert