Fjarðarbyggð samþykkir fjárhagsáætlun til ársins 2010

Fjarðabyggð hefur samþykkt fjárhagsáætlun fram til ársins 2010. Var hún unnin með hliðsjón af þeirri uppbyggingu sem verður í Fjarðabyggð vegna nýs álvers Alcoa á Reyðarfirði.

Áætlunin tekur m.a. mið af 1.250 manna fjölgun á næstu 7 árum, byggingu ríflega 400 íbúða, fasteignaskattsgreiðslum Alcoa frá árinu 2007 og útþenslu málaflokka er lúta að félagsþjónustu, samgöngum, heilbrigis-, fræðslu- og æskulýðsmálum. Þannig gerir Fjarðabyggð ráð fyrir að nemendum í skólakerfinu fjölgi úr 490 í 750, hækkandi útsvarstekjum í takt við fjölgun íbúa og hækkun fasteignamats vegna aukinnar eftirspurnar húsnæðis.

Gunnar Jónsson, forstöðumaður stjórnsýslusviðs Fjarðarbyggðar segir Alcoa muni borga 200 milljónir árlega í fasteignagjöld frá árinu 2007.

"Það má segja að öll áætlun okkar byggist á þeim miklu tekjum sem við fáum af álverinu. Okkur sýnist til dæmis vaxtagjöld sveitarfélagsins muni lækka frá 52 milljónum nú, niður í 8,6 milljónir árið 2010. Þetta snýst þannig mikið um þessar hreinu aukatekjur sem koma inn í sveitasjóðinn við að álverið er staðsett í Fjarðabyggð," segir Gunnar.

"Í samstæðuhluta A áætlum við að tekjur okkar fari úr 1,2 milljörðum nú, í tæpa 2 milljarða árið 2010. Á sama tíma reiknum við með að fara úr 1,2 milljarði í rekstrargjöldum í 1,7 milljarða. Þá munu lántökugjöld einnig lækka þegar álverið tekur til starfa."

Gunnar segir Fjarðabyggð ætla í fjárfestingar af fullum þunga árið 2004. "Þá munum við leggja 400 milljónir í fjárfestingar og tæpar 300 milljónir á árunum 2005 og 2006. Menn horfa á að framkvæmdaþunginn verði mestur á þessum þremur árum, en verði óverulegur árið 2007 þegar álverið opnar." Alls er gert ráð fyrir að fjárfestingar nemi 1.250 milljónum fram til 2010.

Grunnskóli Reyðarfjarðar stærsta einstaka framkvæmdin

"Stærsta einstaka framkvæmdin á kortinu er Grunnskóli Reyðarfjarðar. Í hana fara 300 milljónir. Þá á að byggja sundlaug á Eskifirði og íþróttahús á Reyðarfirði og í það fara 200 milljónir í hvora framkvæmd fyrir sig. Þá verða leikskólar efldir í þéttbýliskjörnunum þremur og samanlagt fara í það 170 milljónir. Annað má segja að verði viðbætur og stækkanir á því þjónustuhúsnæði sem fyrir er."

Það markverðasta við fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar til 2010 segir Gunnar þó vera að rekstrarniðurstaða samstæðuhluta A nú sé tæpar 15 milljónir í tap, en verði 279 milljónir í rekstrarafgang árið 2010. Þá séu langtímaskuldir sveitarfélagsins nú tæpir 1,6 milljarðar en þær verði eftir sjö ár komnar niður í 985 milljónir ef áætlanir standist.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert