Segja umhverfisráðherra brjóta eigin reglugerð

Náttúruverndarsamtök Íslands gagnrýna að umhverfisráðherra skuli ekki hafa kveðið upp úrskurð vegna kæru samtakanna á útgefið starfsleyfi Umhverfisstofnunar vegna álvers Alcoa í Reyðarfirði. Krafa samtakanna var að í starfsleyfi skyldi gert ráð fyrir vothreinsibúnaði.

Náttúruverndarsamtökin kærðu útgáfu starfsleyfisins 28. mars og segja að samkvæmt reglugerð, sem umhverfisráðherra hafi á sínum tíma gefið út, hafi ráðherra borið að kveða upp úrskurð vegna kærunnar í síðasta lagi þann 25. apríl sl.

Krafa samtakanna er að í starfsleyfi skyldi gert ráð fyrir vothreinsibúnaði. Segja samtökin að staðfesti umhverfisráðherra útgefið starfsleyfi megi ætla að það leiði til þess að losun brennisteinsdíoxíðs út í andrúmsloftið verði 12 sinnum meiri en Alþjóðabankinn telur að ný álver komist af með að losa.

„Samkvæmt gr. 33.4 í reglugerð um starfsleyfi átti umhverfisráðherra að kveða upp úrskurð vegna kærunnar í síðasta lagi þann 25. apríl sl. Í umfangsmiklum málum er ráðherra þó heimilt að taka sér lengri frest en þá skal hann tilkynna hlutaðeigandi um töf á afgreiðslunni. Ráðherra hefur enn ekki kveðið upp úrskurð sinn og hefur heldur ekki tilkynnt Náttúruverndarsamtökunum um tafir á afgreiðslu málsins," segir í tilkynningu frá samtökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert