Kæra útgáfu á starfsleyfi fyrir Fjarðaál

Náttúruverndarsamtök Íslands hafa kært til umhverfisráðherra ákvörðun Umhverfisstofnunar hinn 14. mars. s.l. um útgáfu á starfsleyfi fyrir álver Reyðaráls. Byggist kæran m.a. á því að dreifingarspá fyrir loftmengun hafi ekki legið fyrir þegar tillögur að starfsleyfi voru auglýstar og því hafi ekki verið tímabært að auglýsa þær.

Þá segja Náttúruverndarsamtökin að þegar dreifingarspá lá fyrir nokkrum dögum fyrir útgáfu leyfisins hafi komið í ljós að Reyðarál gat ekki uppfyllt þau skilyrði fyrir útgáfu starfsleyfisins sem auglýst voru. Í stað þess að krefjast bættra mengunarvarna þannig að skilyrðin yrðu uppfyllt hafi Umhverfisstofnun gripið til þess ráðs að slaka á áður settum umhverfismörkum. Þar með sé ljóst að skilyrðin fyrir starfsleyfinu séu ekki í samræmi við niðurstöður mats á umhverfisáhrifum. Það brjóti gegn 16. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum sem kveður á um að leyfisveitendur skuli taka tillit til úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum. Jafnframt telja Náttúruverndarsamtökin brotið gegn ákvæði 23. gr. reglugerðar um starfsleyfi þar sem skýrt sé kveðið á um að í starfsleyfi skuli tekið fullt tillit til niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum.

Þá benda samtökin á að ekki sé gerð krafa um bestu fáanlegu tækni og því verði losun brennisteinsdíoxíðs hátt í fimm sinnum meiri en gert var ráð fyrir í mati á umhverfisáhrifum eða tæplega 3.900 tonn í stað 828 tonna.

Í kæru samtakanna eru þrjár kröfur: aðalkrafa, varakrafa og þrautakrafa. Aðalkrafan er að í starfsleyfi verði gerð krafa um vothreinsibúnað líkt og gert var ráð fyrir í því umhverfismati sem liggi til grundvallar framkvæmdinni.

Varakrafan er að Umhverfisstofnun verði gert að leggja mat á hvaða tækni sé best til þess fallin að vernda alla þætti umhverfisins og að gert verði ráð fyrir þeirri tækni í starfsleyfi. Þrautakrafa er að Umhverfisstofnun verði gert að vinna starfsleyfið að nýju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert