Alcoa fagnar samþykkt frumvarps um álver í Reyðarfirði

Tillaga Alcoa að álveri í Reyðarfirði.
Tillaga Alcoa að álveri í Reyðarfirði.

Bandaríska álfyrirtækið Alcoa hefur sent frá sér tilkynningu þar sem þeirri ákvörðun Alþingis er fagnað að samþykkja heimild til samninga um álver í Reyðarfirði.

„Niðurstöður atkvæðagreiðslu Alþingis í dag hefur það í för með sér að brátt mun rísa eitt nútímalegasta og samkeppnishæfasta álver heims við Reyðarfjörð. Við erum þakklátir fyrir þann stuðning sem verkefnið hefur fengið frá Íslendingum og kjörnum fulltrúum þeirra. Fjarðaál verður hannað með það fyrir augum að starfsemi álversins mæti ýtrustu umhverfisstöðlum. Við hlökkum til að verða virkur þátttakandi í íslensku atvinnulífi,“ er haft eftir Alain Belda, stjórnarformanni og forstjóra Alcoa í tilkynningunni.

Þar segir að Fjarðaál sé hluti af einni umfangsmestu fjárfestingu sem ráðist hafi verið í á Íslandi, en byggingarkostnaður álversins er áætlaður 1,1 milljarður Bandaríkjadala eða u.þ.b. 84 milljarðar króna. Starfsemi Fjarðaáls muni styrkja og auka fjölbreytileika í íslensku atvinnulífi á sama tíma og hún muni styðja við framþróun á Austurlandi. Fjarðaál mun gegna lykilhlutverki í áætlunum Alcoa um aukin umsvif í framleiðslu áls, en ársframleiðsla Fjarðaáls mun hljóða upp á 322.000 tonn.

Verkefnið felur í sér að Landsvirkjun reisi Kárahnjúkavirkjun norðan Vatnajökuls, að Hafnarsjóður Fjarðabyggðar reisi hafnaraðstöðu og loks að Alcoa byggi álverið. Hafist verður handa við að byggja álverið árið 2005 og áætlað er að verksmiðjan hefji framleiðslu árið 2007.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert