Náttúruverndarsamtökin gera athugasemdir við starfsleyfistillögur fyrir 322.000 tonna álver Alcoa á Reyðarfirði

Náttúruverndarsamtök Íslands hafa gert athugasemdir við starfsleyfistillögur fyrir 322.000 tonna álver Alcoa á Reyðarfirði. Samtökin telja að þar sem dreifingarspá fyrir mengun í lofti lá ekki fyrir þegar tillögur að starfsleyfi voru auglýstar hafi ekki verið tímabært að auglýsa þær.

Þá telja samtökin að þau skilyrði, sem Umhverfisstofnun hefur lagt til, rúmist ekki innan þess umhverfismats sem liggur til grundvallar þar sem:

1. Losun á SO2 er hátt í 5 sinnum meiri en fram kom í mati á umhverfisáhrifum.
2. Sjónræn áhrif vegna reykháfa voru ekki metin í mati á umhverfisáhrifum.
Í umhverfismatinu var áætluð losun á SO2 828 tonn á ári. Án frekari skýringa gaf Hollustuvernd ríkisins Reyðaráli (Norsk Hydro) 17% afslátt á sínum tíma og lagði til að heimiluð yrði losun á 966 tonnum af SO2 á ári. Nú er gengið enn lengra og lögð til árleg losun á 3.864 tonnum af SO2 frá álveri Alcoa. Þetta er 4 sinnum meiri losun en lagt var til fyrir Norsk Hydro á sínum tíma og tæplega 5 sinnum meiri losun en greint var frá í mati á umhverfisáhrifum fyrir álbræðslu Norsk Hydro. Þessari fjór- til fimmföldun á útblæstri SO2 verður mætt með tveimur 78 metra háum strompum.

Þar sem álver Alcoa fór ekki í mat á umhverfisáhrifum eru upplýsingar um getu þeirra til mengunarvarna ekki jafn aðgengilegar almenningi og æskilegt væri. Af þessum sökum er ekki hægt að slá því föstu hvort rekstraraðilar þurfi að gera sitt besta til þess að uppfylla tillögurnar eða hvort liðleg umhverfisyfirvöld hafi veitt þeim álíka svigrúm og til stóð að veita Norsk Hydro á sínum tíma.

Svo virðist sem Alcoa hafi komist langt á yfirlýstri stefnu sinni um „no discharge policy“, þ.e.a.s. engin losun í vatn. Náttúruverndarsamtök Íslands harma það að umhverfisyfirvöld skuli láta órökstudda „umhverfisstefnu“ fyrirtækja villa sér sýn. Í umhverfismati fyrir Norsk Hydro var á sínum tíma gert ráð fyrir vothreinsun. Slíkt var talið bæta loftgæði án þess að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif á lífríki sjávar, sbr. úrskurð Skipulagsstofnunar. Í ljósi þessa er ekki ástæða til að ætla að vothreinsibúnaður hjá Alcoa myndi hafa í för með sér neikvæð áhrif á lífríki sjávar. Með því að halda fast í „umhverfisstefnu“ sína kemst Alcoa upp með að skerða loftgæði meira en nauðsynlegt er. Þetta kemur sér vel fyrir hluthafa í Alcoa þar sem stórir strompar eru mun ódýrari lausn en vothreinsibúnaður, bæði í byggingu og í rekstri, segir í tilkynningu frá Náttúruverndarsamtökum Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert