Frumvarp iðnaðarráðherra um álver Alcoa í Reyðarfirði lagt fram á Alþingi: 200 milljóna fasteignaskattar

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra hefur lagt fram lagafrumvarp á Alþingi um að veitt verði heimild til að gera, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, samninga við Alcoa og tengd félög um að reisa og reka 322 þúsund tonna álverksmiðju og önnur mannvirki í Reyðarfirði. Fyrsta umræða um frumvarpið á að fara fram í næstu viku í sölum Alþingis.

Meðal þess sem kemur fram í frumvarpinu er að fasteignaskattur af mannvirkjunum muni skila sveitarfélaginu Fjarðabyggð um 200 milljónum króna á ári. Eru þá ótaldar tekjur af útsvarsgreiðslum starfsmanna álversins, sem koma til með að búa flestir í Fjarðabyggð.

Skattlagt eftir íslenskum lögum

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að þar sé í fyrsta lagi veitt heimild til að semja við Fjarðaál sf., sem Alcoa hefur stofnað, um að reisa og reka álverið. Kveðið er á um að félagið og eigendur þess starfi samkvæmt ákvæðum íslenskra laga.

Í öðru lagi er kveðið á um heimildir ríkisstjórnarinnar til að tryggja efndir af hálfu Fjarðabyggðar og hafnarsjóðs Fjarðabyggðar. Í þriðja lagi er kveðið á um skattlagningu vegna reksturs álverksmiðjunnar en hún verður í meginatriðum í samræmi við íslensk skattalög en með nokkrum sérákvæðum. Meðal þeirra ákvæða er að álverið og eigendur þess verða undanþegnir eignarskatti, iðnaðarmálagjaldi, gatnagerðargjaldi og byggingarleyfisgjaldi. Einnig verður Alcoa undanþegið ákvæðum laga um öryggi raforkumannvirkja, neysluveitna og raffanga.

Í fjórða lagi er kveðið á um lögsögu íslenskra dómstóla og stöðu gerðardóms auk þess sem íslensk lög ráða um túlkun og skýringu samninga.

Útblástur ekki skattlagður

Í fjárfestingarsamningi er heimilt að kveða á um að skattar eða gjöld verði ekki lögð á raforkunotkun Alcoa og útblástur lofttegunda eða aðra losun úrgangsefna, nema slíkir skattar og gjöld séu lögð með almennum hætti á öll önnur fyrirtæki í landinu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert