Erlendur banki metur fyrirhugað álver ódýrt miðað við framleiðslugetu

Í skýrslu greiningardeildar bankans Credit Suisse First Boston, CSFB, segir að byggingarkostnaður fyrirhugaðs álvers Alcoa á Austurlandi verði lágur miðað við framleiðslumagn. Álverið á að framleiða 322.000 tonn á ári og kostnaðurinn er áætlaður 1,1 milljarður Bandaríkjadala, jafnvirði 87 milljarða króna. Það jafngildir því að byggingarkostnaður á hvert framleitt tonn á ári sé 3.416 dalir, eða 271 þúsund krónur.

Greiningardeild CSFB segir að þessi lági byggingarkostnaður komi á óvart, því þó að Ísland sé eftirsóknarverður staður fyrir álframleiðslu vegna hagstæðrar orku, sé ekki sérstaklega ódýrt að byggja hér á landi. Þar að auki hafi Alcoa sagt að álverið eigi að verða hið umhverfisvænasta í heimi og að þessi áhersla á umhverfismál hafi gert framkvæmdina dýrari en ella.

Telja að hlutabréf í Alcoa hækki

Í skýrslu CSFB segir að fyrirhugað álver feli að óbreyttu í sér aukningu á framleiðslugetu Alcoa um 7,5% og aukningu á framleiðslugetu heimsins alls um 1,1%. CSFB telur þó að þessi aukning verði ekki að veruleika nema umtalsverður skortur verði á áli, því óhagkvæmari álverum Alcoa verði líklega lokað þegar framleiðsla hefjist í hinu nýja álveri. Tilfærsla á framleiðslu Alcoa frá álverum í Bandaríkjunum til hagkvæmari álvera í Kanada og á Íslandi muni verða mikilvæg fyrir Alcoa.

Greiningardeild CSFB telur að hlutabréf í Alcoa muni hækka umfram almenna hækkun á markaðnum á næstu 12 mánuðum. Verðið, sem nú er rúmir 22 Bandaríkjadalir á hlut, muni verða 29,40 dalir snemma á næsta ári.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert