Ráðstöfunarréttur Fjarðaáls bundinn skilyrðum

Samningstími Landsvirkjunar, Fjarðaáls, sem er að fullu í eigu Alcoa, og Alcoa er 40 ár en orkuverðið verður endurskoðað eftir tuttugu ár. Þetta kom fram í máli Friðriks Sophussonar, forstjóra Landsvirkjunar, á fundi Verslunarráðs um virkjunarframkvæmdir og álverssamninga í gær.

Hann segir að í samningum sé harðræðisákvæði eins og í öðrum samningum sem Landsvirkjun hefur staðið að. Alcoa ábyrgist greiðslu á 85% af orkunni í 40 ár algjörlega óháð því hvort fyrirtækið nýtir orkuna eða ekki. Það er takmarkaður framsalsréttur á rafmagnssamningnum þannig að ef Alcoa selur verksmiðjuna þá kemur Landsvirkjun að því máli. Samningurinn lýtur íslenskum lögum og gerðardómur verður í Stokkhólmi og það þarf að vera samráð á rekstrartímanum eins og eðlilegt er. Það er takmarkaður ráðstöfunarréttur Fjarðaáls á samningsbundnu rafmagni þannig að ef þeir nýta ekki rafmagnið þá er ekki sjálfsagt að þeir geti selt það öðrum nema síður sé," að sögn Friðriks.

Rólegt tímabil framundan

Jake Siewert, aðaltalsmaður Alcoa, ræddi meðal annars um reynslu Alcoa af samskiptum við íslenska aðila, bæði stjórnvöld og aðra. Siewert sagði reynsluna hér á landi afar góða. Íslendingar hefðu haft frumkvæði og unnið stærstan hluta af undirbúningi álversframkvæmdanna. Hann sagði hlutina ganga mun hraðar fyrir sig en fyrirtækið ætti að venjast víðast hvar. Þar að auki væri víða erfitt að afla upplýsinga en hér á landi væru engin leyndarmál.

Siewert sagði Alcoa hafa fundið fyrir miklum áhuga og miklum væntingum hér á landi. Hann lagði þó áherslu á að þótt hlutirnir hefðu gengið hratt fyrir sig frá því fyrirtækið kom að málinu í apríl á síðasta ári væri ekki komið að því að það færi að ráða starfsmenn eða verktaka hér á landi. Nú tæki við rólegt tímabil og hönnunarvinna, en það væri fyrst árið 2005 og 2006 sem starfsemin hæfist af krafti hér á landi.

Siewert kom einnig inn á þá gagnrýni sem verið hefði á þessar framkvæmdir hér á landi. Hann sagði að samkvæmt könnunum nytu þær stuðnings um 2/3 hluta þjóðarinnar, en að Alcoa vildi beita sér fyrir auknum stuðningi og vinna andstæðinga yfir á sitt band. Þótt sigur hefði unnist í málinu vildi fyrirtækið koma vel fram við þá sem biðu lægri hlut og eiga góð samskipti við alla og leitast við að sannfæra þá um að vel yrði að málum staðið og að framkvæmdirnar ættu rétt á sér.

Frestun opinberra framkvæmda

Bolli Þór Bollason frá fjármálaráðuneytinu sagði að ef kæmi til þeirra álvers- og virkjunaframkvæmda sem fyrirhugaðar eru á næstu árum yrði hið opinbera að beita virkri hagstjórn til að stemma stigu við þenslu. Helsta aðgerðin yrði frestun á opinberum framkvæmdum þar til að niðursveiflu kæmi aftur. Hann sagði að miðað við framreikning ráðuneytisins, sem þó væri rétt að gera fyrirvara við vegna mikillar óvissu, væri gert ráð fyrir að hagvöxtur færi upp í 5-6% á árunum 2005-2006 en eftir það kæmi niðursveifla. Bolli sagði að tímasetning framkvæmda eins og þessara gæti ekki verið betri. Mikil eftirspurn yrði hins vegar eftir vinnuafli og aukinn viðskiptahalli.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert