Talsmaður Alcoa segir fund með borgarstjóra góðan

Jake Siewert, talsmaður Alcoa í Bandaríkjunum, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir …
Jake Siewert, talsmaður Alcoa í Bandaríkjunum, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri áttu saman fund í morgun. mbl.is/Kristinn

Jake Siewert, talsmaður bandaríska álfyrirtækisins Alcoa, segir fund sinn og borgarstjóra í morgun hafa verið góðan og að hann hafi orðið margs vísari á honum varðandi tímasetningar borgarráðs í máli er varðar það hvort Reykjavíkurborg gangi í ábyrgðir fyrir láni Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar. Siewert segir engin loforð hafa verið gefin á fundinum og að hann viti ekki hug borgarfulltrúa í málinu.

Siewert segist ekki hafa ráðgert fundi með borgarfulltrúum en að hann verði hér á landi út vikuna og að fleiri fundir verði haldnir. Þá sé heldur ekki ráðgerður annar fundur með borgarstjóra.

Siewert vildi ekki tjá sig um framgang fundarins en segist láta borgarstjóra það eftir. Ekki náðist í Ingibjörgu Sólrúnu enda hófst í hádeginu fundur í borgarráði.

Siewert sagðist hafa tekið það skýrt fram á fundinum að samningurinn um Kárahnjúkavirkjun væri góður fyrir báða aðila, þ.e. Alcoa og Landsvirkjun, og hann væri hagstæður íslensku efnahagslífi til langs tíma litið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert