Valgerður Sverrisdóttir: Mikill gleðidagur í íslenskri atvinnusögu

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra segist vera afar glöð vegna þeirrar niðurstöðu sem stjórnir Alcoa og Landsvirkjunar komust að í dag varðandi álver í Reyðarfirði og Kárahnjúkavirkjun. „Þetta er mikill gleðidagur í íslenskri atvinnusögu. Þetta er stór og mikill áfangi og ég tel afar merkilegt að málið skuli nú vera komið á þetta stig í ljósi þess að aðeins eru liðnir nokkrir mánuðir frá því Alcoa kom að því," sagði Valgerður.

Hún sagði að sér væri efst í huga þakklæti til þeirra sem hefðu unnið að þessu máli hér á landi og lagt nótt við dag og væru nú að uppskera laun erfiðis síns.

Þegar borið var undir hana það álit Eddu Rósar Karlsdóttur, eins fulltrúa ríkisins í stjórn Landsvirkjunar, að heildararðsemi Kárahnjúkavirkjunar væri lítil og því töluverðar líkur á að verkefnið skilaði ekki viðunandi arði til þjóðarbúsins en hins vegar myndi virkjunin skila Landsvirkjun viðunandi ávöxtun á eigin fé, sagðist Valgerður telja að í raun ætti að snúa þessu við. Framkvæmdirnar myndu fyrst og fremst skila þjóðarbúinu arði. Hins vegar hefðu fulltrúar fyrirtækisins lýst því yfir að viðunandi arðsemi væri 5-6% af eigin fé en arðsemin af virkjuninni væri metin 11% af eigin fé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert