Stjórn Alcoa samþykkir að byggja álver í Reyðarfirði fyrir 90 milljarða króna

Tölvumynd af fyrirhuguðu álveri Alcoa í Reyðarfirði.
Tölvumynd af fyrirhuguðu álveri Alcoa í Reyðarfirði.

Stjórn bandaríska álfyrirtækisins Alcoa samþykkti á fundi í New York í dag að ráðast í byggingu 322.000 tonna álvers við Reyðarfjörð sem nefnt verður Fjarðaál. Er álverið hluti af einni umfangsmestu fjárfestingu sem ráðist hefur verið í á Íslandi. Áætlað er að framkvæmdir við bygginguna hefjist árið 2005 og álverið hefji framleiðslu árið 2007. Byggingarkostnaður Fjarðaáls er áætlaður 1,1 milljarður dala, eða um 90 milljarðar króna og dreifist hann á næstu fjögur ár. Mun álverið skapa um 450 störf í álverinu og um 300 störf í tengdum iðnaði og þjónustu.

„Fjarðaál mun gegna lykilhlutverki í áætlunum Alcoa um aukin umsvif í framleiðslu áls,“ sagði Alain Belda, aðalforstjóri og stjórnarformaður Alcoa í dag, að því er kemur fram í tilkynningu frá Alcoa þar sem ákvörðunin er kynnt. „Við leggjum nú áherslu á að lækka framleiðslukostnað og ná enn aukinni framleiðni. Þegar við skoðum ný verkefni víðs vegar um heiminn munum við halda áfram að endurmeta hagkvæmni þeirra álvera sem við starfrækjum nú, sér í lagi í Bandaríkjunum þar sem dýr orka og vinnuafl hafa dregið úr samkeppnishæfni margra álvera,“ er einnig haft eftir Belda.

Þá segir hann að forsvarsmenn Alcoa geri sér grein fyrir hve sérstök náttúra Íslands sé. „Við lofum að ganga um umhverfið mjög varfærnislega þegar fram verður haldið. Við búumst við því að sú mikla reynsla og sú tækni sem við höfum þróað muni koma að góðum notum við að tryggja að framkvæmdirnar hafi lágmarksáhrif á umhverfið. Við hlökkum til að starfa með Íslendingum og kjörnum fulltrúum þeirra við að tryggja þessu verkefni brautargengi á Alþingi þegar kemur til afgreiðslu heimildarfrumvarps og annarra reglna og leyfa er að þessu lúta,“ sagði Belda og bætti því við að það gleddi hann mjög að stjórn Landsvirkjunar hefði samþykkt rafmagnssamning fyrirtækjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert