Samningamenn Alcoa á fundum með Landsvirkjun á morgun

Von er á samningamönnum frá Alcoa til landsins í dag eða í fyrramálið en samningafundur verður haldinn á morgun, miðvikudag, ef ekkert óvænt kemur upp á. Vonir eru bundnar við að mönnum takist að leiða viðræðurnar til lykta og að hægt verði að árita samninga um byggingu álvers í Reyðarfirði og virkjun við Kárahnjúka á föstudaginn kemur.

Gangi þetta eftir er þess að vænta að samningarnir verði formlega undirritaðir seinni hlutann í janúar og, ef að líkum lætur, geti ítalska verktakafyrirtækið Impregilo þá hafið framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun strax á vori komanda.

Tæpur hálfur mánuður í úrskurð Skipulagsstofnunar

Reikna má með að úrskurður Skipulagsstofnunar vegna samræmds umhverfismats muni liggja fyrir skömmu fyrir jól ef ekki þarf að fara fram á frekari upplýsingar frá framkvæmdaaðila.

Samningarnir verða síðan væntanlega lagðir fyrir stjórn Alcoa til samþykktar dagana 9. og 10. janúar en þá stendur til að halda stjórnarfund félagsins. Ætla má að þá muni samþykki stjórnar Landsvirkjunar (LV) liggja fyrir. Þegar samningar hafa svo verið undirritaðir mun Landsvirkjun í kjölfarið undirrita samninga við bjóðendur, að öllum líkindum við ítalska fyrirtækið Impregilo, vegna framkvæmda við stíflugerð og aðrennslisgöng, en fyrirtækið bauð lægst í verkið.

Ætla má að sérfræðingar LV séu þegar byrjaðir eða muni byrja við áritun samninganna að endurskoða og uppfæra alla arðsemisreikninga miðað við útboð og endanlegan samning við Alcoa. Þá mun Landsvirkjun um leið yfirfara alla aðra kostnaðarútreikninga, fara yfir spár um þróun á álmörkuðum, vaxtaþróun og þróun á gjaldeyrismörkuðum. Niðurstaða á þeirri greiningu verður síðan kynnt stjórn og eigendum Landsvirkjunar og iðnaðarnefnd Alþingis, væntanlega fyrir áramótin.

Landsvirkjun ákaflega traustur skuldari

Ekki er ástæða til að ætla annað en LV muni sækjast fjármögnunin vel; um mánaðamótin október-nóvember hækkaði Moody's lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar vegna erlendra langtímaskulda félagsins úr Aaa í Aa3 á erlendum. Þetta er hæsta einkunn sem fyrirtæki geta fengið hjá Moody's og sambærileg við lánshæfiseinkunn erlendra skulda íslenska ríkisins enda eru eigendur LV, þ.e. ríkið, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær, ábyrgir fyrir skuldum LV.

Hækkað lánshæfismat mun auðvelda LV aðgengi að lánsfé á góðum kjörum og væntanlega betri kjörum en áður. Undirbúningur LV vegna fjármögnunar verksins er að nokkru leyti hafinn, þ.e. menn hafa þreifað fyrir sér að sögn Þorsteins Hilmarssonar hjá LV: "Menn eru búnir undir það að gefa í þegar á þarf að halda til þess að ganga frá þeim þætti."

Skipulagsstofnun barst samanburðarskýrsla á umhverfisáhrifum þess álvers sem Norsk Hydro hugðist reisa og fyrirhugaðs álvers Alcoa hinn 22. nóvember. Að sögn Stefáns Thors skipulagsstjóra eru umsagnir frá stofnunum, sem að málinu koma, að skila sér inn þessa dagana og stofnunin rétt að byrja að fara yfir þær. "Við reynum að gera þetta eins fljótt og við getum en ég held að það sé óraunhæft að ætla að við úrskurðum áður en fresturinn er úti."

Stefán segir að tafir geti orðið á úrskurði ef biðja þurfi um frekari upplýsingar frá framkvæmdaraðila og hann taki sér tíma til þess að svara. Ekki hafi þó verið farið fram á slíkar upplýsingar til þessa.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert