Niðurstöðu að vænta af viðræðum við Reyðarál

Fulltrúar álviðræðunefndar stjórnvalda og Fjárfestingarstofunnar - orkusviðs eru nýkomnir heim að lokinni ferð til Bandaríkjanna og Kanada þar sem viðræður fóru fram við talsmenn Alcoa. Einnig var álver þeirra skoðað sem er svipað uppbyggt og áformað er að reisa í Reyðarfirði, þó heldur minna.

Finnur Ingólfsson, formaður viðræðunefndarinnar, fór fyrir hópnum og í samtali við Morgunblaðið sagði hann ferðina hafa gengið mjög vel. Samningaviðræðum miðaði vel áfram og allt gengi samkvæmt áætlun, sem miðaðist við að gera samninga tilbúna til áritunar fyrir lok nóvember og að málið kæmi til kasta Alþingis fyrir jól. Það væri í anda viljayfirlýsingar frá því í júlí sl. Þá sagði hann niðurstöðu að vænta fyrir mánaðamótin í viðræðunum við Reyðarál varðandi umhverfismat þess fyrirtækis sem Alcoa hefur falast eftir. Reyðarál er sem kunnugt er í eigu Norsk Hydro og Hæfis, félags á vegum íslenskra fjárfesta.

"Viðræðurnar við Reyðarál eru í farvegi sínum og vonast er til að hægt verði að ljúka þeim fyrir mánaðamótin. Unnið er að samningi á milli aðilanna þar sem margir þættir koma inn í. Semja þarf um hvað nákvæmlega er verið að kaupa af þeirri vinnu sem Reyðarál hafði unnið. Eftir það verður sest yfir tölurnar og ég hef trú á að allir vilji vera sanngjarnir í þeim efnum," sagði Finnur.

Eftir samningafund í New York um síðustu helgi fóru Finnur og aðrir úr íslensku sendinefndinni til Kanada að skoða álver Alcoa skammt frá Québec, sem hefur verið starfrækt í rúm tíu ár.

"Álverið var hreint, snyrtilegt og til mikillar fyrirmyndar. Alcoa leggur ríka áherslu á öryggis- og umhverfismál og að starfa í góðri sátt við samfélagið í kringum álverin. Það var fróðlegt að sjá það af eigin raun. Þarna í Kanada ríkir greinilega mikil og góð sátt við íbúa og atvinnulífið á svæðinu," sagði Finnur en allt nánasta umhverfi álversins er skógi vaxið. Hann sagði landbúnað vera í miklum blóma í nágrenninu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert