Viðræður hafa tekið lengri tíma en ætlað var

Finnur Ingólfsson, formaður álviðræðunefndar stjórnvalda, segir að samningaviðræður vegna kaupa Alcoa á Reyðaráli af Norsk Hydro og Hæfi gangi ágætlega og stefnt sé að niðurstöðu um eða upp úr miðjum október. Hann segir viðræðurnar hafa tekið lengri tíma en talið var í fyrstu, en um flókið mál sé að ræða. Meðal þess sem Alcoa leitar eftir er sú vinna við umhverfismat sem Reyðarál hafði innt af hendi. Vonast Finnur eftir því að niðurstaðan verði jákvæð fyrir Alcoa.

Þessa dagana eru staddir hér á landi fulltrúar verkfræðifyrirtækis ásamt starfsmönnum Alcoa sem eru að fara yfir tæknilega þætti samningaviðræðna um byggingu álversins í Reyðarfirði. Eitt af því sem verið er að skoða, að sögn Finns, er samanburður á stærð álversins og mismunandi framleiðslutækni. Reiknað er með að þeim samanburði verði lokið í lok október og skýrsla verði send til Skipulagsstofnunar.

Rætt um orkuverð og hafnaraðstöðu

Einnig eru í gangi viðræður við Landsvirkjun um orkuverð og viðræður við heimamenn á Austfjörðum um hafnaraðstöðu. Finnur segir þessar viðræður ganga samkvæmt áætlun og að ekkert óvænt hafi komið upp sem muni tefja ferlið. Samkvæmt viljayfirlýsingu, sem undirrituð var í júlí í sumar, er stefnt að því að niðurstaða verði komin um alla þætti álversins í janúar næstkomandi. Samningum um orkuverð og hafnaraðstöðu á að vera lokið fyrir árslok.

Um næstu helgi er von á aðalsamningamanni Alcoa, Michael Baltzell, til landsins ásamt fylgdarliði. Að sögn Finns er um hefðbundna vinnuferð að ræða en margar slíkar hafa verið farnar milli Íslands og Bandaríkjanna síðustu mánuði. Þá hafa viðræður um orkuverð m.a. farið fram með aðstoð fjarfundabúnaðar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert