Aukinn stuðningur við stóriðjuáform á Austurlandi

Unnið við vegagerð frá Reyðarfirði að Sómastöðum þar sem Alcoa …
Unnið við vegagerð frá Reyðarfirði að Sómastöðum þar sem Alcoa hyggst reisa álver. mbl.is/Kristinn

Stuðningur við fyrirhuguð stóriðjuáform á Austurlandi, virkjun og álver, hefur aukist samkvæmt nýrri könnun Gallups. 61% aðspurðra eru nú hlynnt byggingu álvers við Reyðarfjörð og helmingur aðspurðra, 50%, er hlynntur byggingu Kárahnjúkavirkjunar.

Þá var nú í fyrsta sinn einnig spurt um afstöðu manna til stóriðjuáformanna í heild sinni, þ.e. bæði virkjunar og álvers, og reyndust 53% aðspurðra vera hlynnt þeim.

Spurt var á tvennan hátt til að kanna hvort og þá hvaða munur væri á viðhorfum fólks til stóriðjumálsins í heild sinni annars vegar og hins vegar á viðhorfum þess til álversins sérstaklega eða virkjunarinnar sérstaklega. Helmingur svarenda fékk samsetta spurningu um bæði virkjun við Kárahnjúka og álver við Reyðarfjörð en hinn helmingur svarenda fékk tvær spurningar þar sem annars vegar var spurt um álver við Reyðarfjörð en hins vegar um virkjun við Kárahnjúka.

Af þeim sem tóku afstöðu reyndust 53% vera hlynnt málinu í heild, 30% andvíg en 17% hvorki með eða á móti. Hins vegar var 61% aðspurðra hlynnt byggingu álvers við Reyðarfjörð, samanborið við 55% í könnun Gallups í janúar sl., 23% voru andvíg (25% í janúar sl.) og 16% hvorki með eða á móti (20% í janúar sl.).

Helmingur aðspurðra (50%) var hlynntur Kárahnjúkavirkjun, sem er aukning frá því í febrúar sl. en þá voru 47% hlynnt virkjuninni. Andvíg virkjun nú voru 32% (30% í febrúar sl.) og 18% voru hvorki með eða á móti (23% í febrúar sl.).

Eins og sést á þessum tölum voru fleiri hlynntir álverinu en virkjuninni líkt og í fyrri könnunum. Fleiri voru hlynntir álveri/virkjun en virkjuninni einni en færri voru hlynntir álveri/virkjun en álverinu einu. Svör við samsettu spurningunni bentu því til þess að skoðanir fólks á virkjuninni vegi þyngra.

Um var að ræða símakönnun sem fram fór á tímabilinu 3.-17. júlí og var úrtakið 1.200 manns og svarhlutfall 69,9%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert