Vonast til að skrifað verði undir lokasamninga um álver í janúar

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, G. John Pizzey, aðstoðarforstjóri Alcoa Inc. og Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um framhald viðræðna um "mat og hugsanlega framkvæmd á stóriðjuverkefni sem tekur til byggingar álvers á Austurlandi." Samkvæmt yfirlýsingunni verður áætluð framleiðslugeta nýs álvers u.þ.b. 295.000 tonn af áli á ári. Pizzey sagði á blaðamannafundi í dag að hann væri bjartsýnn á að lokasamningar um verkið yrðu undirritaðir í janúar.

Pizzey sagðist líta svo á að sú yfirlýsing sem skrifað var undir í dag væri ekki hluti af undirbúningsferlinu heldur væri samningsferlið þvert á móti að komast á lokastig. Hann sagði að það hefði komið sér mjög á óvart hve mál hefðu getað gengið hratt fram en viðræður Alcoa og íslenskra stjórnvalda hófust í apríl. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra var spurð um það á blaðamannafundinum hvort samningar um raforkuverð væru ekki stærsti hlutinn af því samningaferli sem nú færi í hönd. Valgerður sagði að það væri augljóslega stór hluti en raforkusamningar hefðu verið langt komnir gangvart Reyðaráli og að aðilar ættu að vera vel upplýstir um hug hver annars. „Friðrik kemst því ekki upp með að stoppa málið," sagði Valgerður og vísaði þar til Friðriks Sophussonar forstjóra Landsvirkjunar. Friðrik tók undir þetta og sagði að þar sem Alcoa hefði fengið upplýsingar um það sem legið hefði undir í samningnum við Norsk Hydro þá ættu menn að vita hvort þeir væru staddir á sama dansleiknum, eins og hann orðaði það. Í þeirri yfirlýsingu sem skrifað var undir í morgun er verkefnið skilgreint með eftirfarandi hætti: 1. Kárahnjúkavirkjun sem byggð verður á vegum Landsvirkjunar.
2. Bygging álvers í Reyðarfirði á vegum Alcoa.
3. Lóð fyrir álver á eignarlandi ríkisins við Reyðarfjörð.
4. Hafnaraðstaða á Mjóeyri sem Fjarðabyggð leggur til og hafnarsjóður sveitarfélagsins byggir og rekur.
5. Önnur tengd aðstaða. Viljayfirlýsingin kveður meðal annars á um eftirfarandi:
  • Áætluð framleiðslugeta nýs álvers verður u.þ.b. 295.000 tonn af áli á ári.
  • Undirbúningur virkjunarframkvæmda hefst þegar í stað. Alcoa og Landsvirkjun hafa samið um að Alcoa beri hluta þeirrar fjárhagsáhættu sem Landsvirkjun tekur með því að hefja í sumar og haust tilteknar undirbúningsframkvæmdir í tengslum við Kárahnjúkavirkjun.
  • Landsvirkjun ræðst í að reisa Kárahnjúkavirkjun með uppsettu afli allt að 630 MW samkvæmt heimild Alþingis frá 16. apríl 2002. Miðað er við að tryggja álverinu rafmagn snemma á árinu 2007 eða fyrr.
  • Ríkisstjórnin heldur áfram að undirbúa nauðsynlega lagasetningu vegna áforma um álverið.
  • Alcoa og Landsvirkjun styðja áform ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaga eystra um að stofna verndarsvæði, svo sem þjóðgarð, í nágrenni við Kárahnjúkavirkjun. Slík áform hafa verið í athugun hjá umhverfisráðuneytinu.
  • Stjórnendur Alcoa stefna að því að álverkefnið verði lagt fyrir stjórn félagsins til samþykkis eigi síðar en í janúar 2003.
  • Landsvirkjun stefnir að því að leggja raforkusamning fyrir stjórn fyrirtækisins og hafnarsjóður Fjarðabyggðar hafnarsamning fyrir stjórn sjóðsins til samþykkis eigi síðar en í lok desember 2002.
  • Fari svo að Alcoa, ríkisstjórnin og Landsvirkjun nái ekki fyrir marslok 2003 að semja að fullu um grunnforsendur endanlegra og bindandi samninga um framkvæmd álverkefnisins, eða um áfanga að slíkum samningi, fellur viljayfirlýsingin úr gildi nema aðilar semji um að framlengja gildistíma hennar eða samþykki nýja yfirlýsingu.
Viljayfirlýsingin í heild
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert