Alcoa neitar að framkvæmdir tengdar álveri hafi slæm áhrif á umhverfið

Alcoa neitar því að framkvæmdir tengdar álveri í Reyðarfirði hafi slæm áhrif á umhverfið í yfirlýsingu sem fyrirtækið hefur sent frá sér vegna fréttatilkynningar umhverfisverndarsamtakanna WWF. „Verkefnið kallar ekki á fólksflutninga, hefur engin áhrif á dýra- eða plöntutegundir í útrýmingarhættu og setur engar hömlur á aðgang ferðafólks og náttúruunnenda að virkjunarsvæðinu," segir í yfirlýsingu Alcoa.

„Viðkvæmt vistkerfi hálendisins verður verndað og hreindýra-, fugla- og selastofnum stafar engin marktæk hætta af framkvæmdunum," segir ennfremur í yfirlýsingunni en þar segir að Hálslón, sem yrði uppistöðulón Kárahnjúkavirkjunar, sé einn besti vatnsaflsvirkjunarkostur sem fyrir hendi er í heiminum. „Þegar gerð virkjunarinnar og aðgangsvega er lokið verður auðveldara fyrir ferðamenn að njóta stórbrotins landslags á svæðinu án þess að valda meiri háttar umhverfisspjöllum. Svæðið heldur óbyggðareiginleikum sínum og getur þannig orðið að auðlind sem er aðgengilegri fyrir íslenska ferðamenn og erlenda að njóta," segir í tilkynningunni. „Virkjunin sjálf er sérlega hagkvæm, þar sem hún þarf aðeins lítið uppistöðulón til þess að framleiða allt að 500 MW af raforku vegna rúmlega 600 m fallhæðar sem fæst með því að veita jökulvatni um neðanjarðargöng," segir að lokum í tilkynningunni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert