Höfum enn áhuga á álveri í Reyðarfirði

Upplýsingafulltrúi Norsk Hydro, Thomas Knutzen, segir að fyrirtækið hafi ennþá áhuga á að reisa álver í Reyðarfirði þrátt fyrir þann mikla áhuga sem Alcoa hafi sýnt verkefninu, nú síðast með því að framlengja könnunarviðræður við íslensk stjórnvöld um sjö vikur. Hann segir að Norsk Hydro muni fylgjast vel með þeim viðræðum.

"Við sýnum því fullkominn skilning að íslensk stjórnvöld vilji ræða við aðra samstarfsaðila. Við vitum ekki nákvæmlega hvað Alcoa hyggst fyrir en ef upp kemur áhugi á að ræða við okkur um einhvers konar samstarf þá erum við reiðubúnir til þess. Þó að við höfum ekki getað staðið við okkar tímasetningar þá teljum við enn að Ísland sé góður kostur til að framleiða ál á markaði í Evrópu og Ameríku. Aðstæður hjá okkur frá því í vetur hafa ekkert breyst hvað það varðar að við þurfum lengri tíma en við höfðum ætlað okkur samkvæmt viljayfirlýsingunni frá síðasta ári," segir Knutzen.

John Pizzey, aðstoðarforstjóri Alcoa, sagði á fundi með blaðamönnum á fimmtudag að Alcoa ætlaði sér í fyrstu að eiga álver í Reyðarfirði 100% en útilokaði ekki að síðar kæmi samstarf við aðra fjárfesta til greina. Spurður um þennan möguleika segir Thomas Knutzen það þekkt að samkeppnisaðilar á álmarkaði starfi saman, ekki síst í frumvinnslu áls. Ekkert samstarf sé þó milli þessara fyrirtækja í dag. "Við erum allir í samkeppni en það stöðvar okkur ekki í að eiga samstarf ef áhugi beggja er fyrir því," segir Knutzen.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær er áhugi fyrir því að Alcoa kaupi Reyðarál, sem er í eigu Norsk Hydro og íslenskra fjárfesta í Hæfi. Áhugi er fyrir þessum viðskiptum meðal íslenskra fjárfesta en spurður um þetta segir Knutzen aðeins að Norsk Hydro vilji ekki útiloka neitt.

Ekki rætt við aðra næstu sjö vikur

Finnur Ingólfsson, formaður viðræðunefndar stjórnvalda í álversmálum, segir það alveg ljóst að fram að 18. júlí nk. verði ekki rætt við aðra fjárfesta en Alcoa. Norsk Hydro sé því ekki inni í myndinni á meðan, eða eins og hann orðar það: "Norðmenn eru einfaldlega ekki á viðræðubekknum núna."

Það hafi sömuleiðis komið skýrt fram í viðræðunum við Alcoa að fyrirtækið ætli sér sjálft að eiga og reka álverið í Reyðarfirði, taki það ákvörðun um að ráðast í framkvæmdina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert