Rætt verður við fleiri álfyrirtæki á næstunni

Tveir starfsmenn bandaríska álfyrirtækisins Alcoa, sem eru sérfræðingar í umhverfismálum, komu til landsins í gærmorgun til viðræðna við fulltrúa Fjárfestingarstofu, Landsvirkjunar, viðræðunefndar stjórnvalda og sveitarfélaga á Austurlandi vegna áhuga Alcoa á að reisa álver á Reyðarfirði. Að sögn Finns Ingólfssonar, formanns viðræðunefndar stjórnvalda í stóriðjumálum, verður rætt við fulltrúa fleiri álfyrirtækja á næstunni en þær viðræður fara fram með öðrum hætti en við Alcoa.

Eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær var undirrituð aðgerðaáætlun í síðustu heimsókn Alcoa til landsins þar sem fyrirtækið heitir því að hafa lokið hagkvæmniathugun sinni fyrir 24. maí næstkomandi

Að loknum fundahöldum í Reykjavík í gær, þar sem einkum var fjallað um umhverfismál og matsskýrslur Skipulagsstofnunar um virkjun og álver kynntar, héldu starfsmenn Alcoa austur á land í gærkvöldi. Í dag munu þeir eiga fund með forráðamönnum sveitarfélaga á Austurlandi, kynna sér virkjanastæði Kárahnjúkavirkjunar, ef veður leyfir, og skoða álverslóðina við Reyðarfjörð. Þeir munu svo fara af landi brott á morgun, að loknum frekari fundahöldum í Reykjavík.

Finnur Ingólfsson var meðal þeirra sem hittu fulltrúa Alcoa í gær. Hann sagði þessa heimsókn þeirra fyrst og fremst vera til að kanna aðstæður nánar og komast á vettvang virkjunar og álvers fyrir austan.

"Við höfum komið okkur saman um vinnuáætlun sem er ekki skuldbindandi. Hér á næstunni munu margir fulltrúar Alcoa koma til landsins til að kynna sér verkefnið og ganga úr skugga um með hvaða hætti þetta samstarf gæti hugsanlega orðið," sagði Finnur.

Aðspurður hvort rætt yrði við fleiri álfyrirtæki sagði Finnur að fleiri fjárfestar og álfyrirtæki hefðu sýnt áhuga á verkefninu fyrir austan. Rætt yrði við þá á næstu vikum en það yrði ekki með sama hætti og þær viðræður sem ættu sér nú stað við talsmenn Alcoa. Finnur vildi á þessu stigi ekki upplýsa um hvaða fyrirtæki væri að ræða.

Smári Geirsson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, mun hitta starfsmenn Alcoa í dag og sýna þeim aðstæður á svæðinu. Í samtali við Morgunblaðið sagði hann að Austfirðingar tækju að sjálfsögðu virkan þátt í því að kynna þá möguleika sem Kárahnjúkavirkjun og álver á Reyðarfirði væru, fyrir þeim aðilum sem sýndu verkefninu áhuga. Smári hitti einnig þá háttsettu stjórnendur Alcoa, sem voru hér á landi í síðustu viku.

Alcoa átti frumkvæðið

Fram kom í Morgunblaðinu sl. laugardag að Alcoa hafði frumkvæði að því að setja sig í samband við Fjárfestingarstofuna, eftir að þau tíðindi bárust að Norsk Hydro gæti ekki staðið við tímaáætlanir í Noral-verkefninu. Fjárfestingarstofan starfar á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins, Landsvirkjunar og Útflutningsráðs Íslands og forveri hennar er markaðsskrifstofa iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert