Iðnaðarráðherra sakaður um að halda upplýsingum frá þingnefndum

Frá Reyðarfirði en teikning af hugsanlegu álveri hefur verið færð …

Frá Reyðarfirði en teikning af hugsanlegu álveri hefur verið færð inn á myndina.
mbl.is

Deilt var um upplýsingagjöf iðnaðarráðherra til nefnda Alþingis vegna fyrirhugaðs álvers í Reyðarfirði á Alþingi í morgun. Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, sagði að ráðherra hefði haldið upplýsingum frá nefndum þess, en því vísaði iðnaðarráðherra á bug. Þá hvatti Bryndís Hlöðversdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, til þess að þeir starfsmenn verkefnisins, sem hefðu ekki upplýst um alla þætti málsins, yrðu kallaðir fyrir viðskipta- og efnahagsnefnd og iðnaðarnefnd þingsins svo hægt yrði að upplýsa alla þætti þess.

Ögmundur Jónasson sagði í athugasemdum um störf þingsins, að það hefði komið fram hjá ráðherra að upplýsingum hafi verið haldið frá nefndum þess. Hann vitnaði til útvarpsviðtals við Valgerði Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um að hún hefði lifað í voninni og því hefðu upplýsingar ekki átt erindi til efnahags- og viðskiptanefndar. Ögmundur sagði það ámælisvert og vítavert að leyna Alþingi upplýsingum á sama tíma og þingið hugðist taka ákvörðun um virkjunarleyfi við Kárahnjúka. „Það var rætt um það á sínum tíma að engar ákvarðanir yrðu teknar fyrr en kaupandi raforkunnar yrði í hendi. Hann er ekki í sjónmáli," sagði Ögmundur og taldi að forsætisnefnd Alþingis ætti að koma saman til þess að ræða þá alvarlegu stöðu sem upp væri komin. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra sagði að í lok febrúar hefði sér verið tjáð um erfiðleika Norsk Hydro um að halda í tímaáætlanir, en hún hefði fengið þau svör að engin breyting yrði á fyrri áætlunum. Hún benti á að sér hefði verið tjáð að erfiðeikar Norsk Hydro vegna fjárfestinga í Þýskalandi mundu ekki hafa áhrif á ákvarðanir hér á landi. Þá hefði þriðji aðili fengist að verkefninu og sýnt því mikinn áhuga. Hún sagði að það hefði ekki verið fyrr en hún hefði rætt við forstjóra Norsk Hydro 19. mars að ljóst var að fyrirtækið mundi ekki standa við áætlanir sínar í tengslum við byggingu álvers í Reyðarfirði. Hún kvaðst hafa rætt við forstjóra fyrirtækisins um að send yrði út sameiginleg yfirlýsing og greint þinginu frá stöðu mála daginn eftir. Hún sagði að yfirlýsingin hefði verið send Alþingi 22. mars. Valgerður sagði það vera fásinnu að upplýsingum hefði verið haldið frá Alþingi og það hefði verið blekkt. Hún sagði það hátt ábyrgra stjórnmálamanna að kanna viðkvæm mál til hlítar áður en þau yrðu opinberuð. Hún lagði jafnframt áherslu á það að virkjanaleyfi yrði afgreitt frá þinginu vegna þess að það skipti máli fyrir þjóðfélagið og einkum og sér í lagi fyrir Austfirðinga. Dylgjur og fáránlegar fullyrðingar Hjálmar Árnason, Framsóknarflokki, sagði að dylgjur og fullyrðingar þingmanna Vinstri grænna væru fáránlegar, að gefa það í skyn að iðnaðarráðherra hefði leynt Alþingi upplýsingum og að málið hefði fengið óeðlilega afgreiðslu í þingnefndum. „Ég er hissa á þessum fullyrðingum og vísa þeim á bug." Hann sagði að ráðherra hefði upplýst Alþingi um gang mála um leið og formlegar upplýsingar hefðu legið fyrir. „Hvort fulltrúar viðsemjenda hafi veitt þingnefndum réttar eða rangar upplýsingar skal ég ekki leggja mat á, enda er ekki óeðlilegt að þingnefndir fái þessa fulltrúa aftur til sín," sagði Hjálmar og tók undir málflutning Bryndísar Hlöðversdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um að haldnir yrðu fundir í efnahags- og viðskiptanefnd og iðnaðarnefnd þar sem þeir starfsmenn á vegum verkefnisins, sem virtust ekki hafa upplýst um alla þætti málsins, kæmu saman til þess að skýra frá stöðu málsins og máflutning sinn. Bryndís sagði að slíkt væri nauðsynlegt svo hægt yrði að skýra málið fyrir þingi og þjóðinni. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, sagðist vera með óbragð í munni eftir samskiptin við Norsk Hydro, sem hann taldi að hefði komið aftan að Íslendingum, ekki gefið réttar upplýsingar og setið á þeim. Hann sagði að ráðherra væri legið á hálsi fyrir að leyna upplýsingum, en kvaðst ekki geta tekið undir það, en taldi að iðnaðarráðherra hefði átt að ræða við forstjóra Norsk Hydro fyrr.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert