Norsk Hydro vill frestun á byggingu álvers

Fyrirhugað álver í Reyðarfirði teiknað inn á ljósmynd samkvæmt upplýsingum …
Fyrirhugað álver í Reyðarfirði teiknað inn á ljósmynd samkvæmt upplýsingum Markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar. mbl.is

Forsvarsmenn Norsk Hydro hafa gefið íslenzkum stjórnvöldum til kynna, að þeir geti ekki staðið við þann tímaramma, sem búið var að semja um vegna fyrirhugaðra framkvæmda við álver á Reyðarfirði, og jafnframt að þeir séu ekki tilbúnir til að ganga frá nýrri tímaáætlun. Þetta þýðir að óbreyttu að framkvæmdir við álver á Reyðarfirði frestast en ekki liggur ljóst fyrir um hve langan frest gæti verið að ræða. Gert er ráð fyrir að frekari upplýsingar um það liggi fyrir innan skamms.

Stefnt var að því að hefja undirbúningsframkvæmdir vegna Kárahnjúkavirkjunar í sumar en gera verður ráð fyrir að verði ekki af byggingu álversins að sinni hafi það áhrif á virkjunarframkvæmdir.

Í samtali við Morgunblaðið í gær sagði Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra að undirbúningur að byggingu álvers á Reyðarfirði og Kárahnjúkavirkjun gengi samkvæmt áætlun. Hins vegar sagði ráðherrann, að nýlega hefðu borizt fréttir um að Norsk Hydro "ætti í erfiðleikum" með fjárfestingu í álfyrirtækinu VAW í Þýzkalandi. Heildarfjárfesting Norsk Hydro í þýzka fyrirtækinu nemur um 273 milljörðum íslenzkra króna.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er meginástæðan fyrir því, að Norsk Hydro vill að minnsta kosti fresta framkvæmdum hér, sú að fjárfestingin í Þýzkalandi er svo mikil að fyrirtækið ræður ekki við aðrar stórframkvæmdir jafnhliða.

Thomas Knutzen, upplýsingafulltrúi Norsk Hydro, vildi ekki í samtali við Morgunblaðið í gær tjá sig um það hvort svo væri en tók fram að ekki væri um að ræða beint samband á milli þessara tveggja fjárfestinga.

Unnið samkvæmt áætlun

Valgerður Sverrisdóttir sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að forráðamenn Norsk Hydro hefðu fullvissað sig á fundi sl. haust um að fjárfestingin í Þýzkalandi hefði ekki áhrif á áhuga þeirra á þátttöku í byggingu álvers í Reyðarfirði. Og ráðherrann bætti við: "Ég treysti því að þau orð standi. Það er verið að vinna að verkefninu samkvæmt áætlun en okkur er samt kunnugt um einhverja erfiðleika við fjárfestingu, sem Norsk Hydro hefur staðið í í Þýzkalandi. En ekkert hefur verið ákveðið um að breyta þeirri áætlun, sem við vinnum eftir. Það er aðalatriðið í mínum huga."

Iðnaðarráðherra sagði að fundir færu nú fram í Kaupmannahöfn milli fulltrúa Landsvirkjunar og Norsk Hydro. "Ég lít alls ekki svo á, að Norsk Hydro ætli sér að bakka út úr verkefninu. Við vonum að málið sé í bærilegum farvegi en það er ekki ólíklegt að eitthvað geti verið til umfjöllunar innan fyrirtækisins miðað við þessa erfiðleika í Þýzkalandi."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert