Úrskurðurinn ítarlegur og vel unninn

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir að sér virðist í fljótu bragði að úrskurður Skipulagsstofnunar um byggingu álvers í Reyðarfirði sé ítarlegur og vel unninn.

Árni gerir hins vegar athugasemdir við nokkur atriði í niðurstöðukafla úrskurðarins. Hann bendir á að Skipulagsstofnun sé ekki unnt að komast að niðurstöðu er hún fjalli um gróðurhúsalofttegundir og losun þeirra þar sem ekki sé orðið ljóst með hvaða hætti skuldbindingar Íslands verði í þeim efnum.

"Flest bendir til að íslenska ákvæðið muni falla inn í Kyoto-bókunina en þá eru tvö skilyrði í því ákvæði sem þarf að uppfylla. Annað skilyrðið er að um sé að ræða endurnýjanlega orku. Miðað við þann úrskurð sem felldur hefur verið um Kárahnjúkavirkjun eru sterk rök fyrir því að þetta flokkist ekki sem endurnýjanleg orka," segir Árni.

Hann segir síðara skilyrðið lúta að því sem kallað er góðir stjórnunarhættir í umhverfismálum. Þar reyni á stjórnunarhætti umhverfisráðherra, ekki síst varðandi úrlausn kærumála.

Árni bendir einnig á að í niðurstöðu Skipulagsstofnunar standi að framkvæmdir séu samþykktar af hálfu stofnunarinnar með þeim skilyrðum að ekki verði búseta innan skilgreinds þynningarsvæðis álvers og rafskautaverksmiðju eftir að rekstur hefst. Þetta sé í raun ábending um að um töluvert mengandi fyrirtæki sé að ræða. Þá bendir Árni á að Skipulagsstofnun telji það ekki forsendu fyrir álverinu að Kárahnjúkavikjun verði byggð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert